13.3.2012

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna samruna Íslandsbanka og Byrs staðfest

Samsett mynd með merkjum MP banka hf., BYRs sparisjóðs hf. og Íslandsbanka hf.Í október 2011 tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun vegna samruna Íslandsbanka og Byr. Í ákvörðun eftirlitsins kom fram að sterkar vísbendingar væru um að þessi samruni muni auka skaðlega fákeppni. Samrunaaðilar hafa hins vegar borið því við að heimila yrði samrunann á vegna reglna samkeppnisréttarins um fyrirtæki á fallanda fæti (e. failing firm defence). Var í því sambandi vísað til alvarlegrar stöðu Byrs. Viðurkennt er að slík aðstaða fyrirtækis geti leitt til þess að heimila beri samruna. Ástæðan er sú að í slíkum tilvikum stafa samkeppnishömlurnar ekki af samrunanum sem slíkum heldur af erfiðri stöðu hins yfirtekna fyrirtækis.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var sú að fjárhagsstaða Byrs hafi verið mjög slæm og raunhæfir möguleikar á annarri sölu en til Íslandsbanka hafi ekki verið fyrir hendi. Þá skiptir umtalsverðu máli að upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu sýndu að ef þessi samruni gengi ekki eftir myndi stofnunin beita heimildum sínum og færa inn- og útlán Byrs til einhvers stóru viðskiptabankanna. Voru skilyrði um fyrirtæki á fallanda fæti uppfyllt og Samkeppniseftirlitið hafði því ekki heimildir að lögum til þess að hafa frekari afskipti af samrunanum.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála af MP banka. Taldi bankinn að ákvörðunin væri byggð á röngum forsendum og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Í úrskurði sínum í dag kemst áfrýjunarnefnd samkeppnismála hins vegar að þeirri niðurstöðu að sýnt hafi verið fram á það að sjónarmið um fyrirtæki á fallanda fæti eigi við í málinu og staðfesti nefndin því ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.