22.3.2012

Héraðsdómur staðfestir að olíufélögin hafi haft með sér ólögmætt samráð

OlíufélögÍ dag hefur Héraðsdómur Reykjavíkur kveðið upp dóm í samráðsmáli stóru olíufélaganna. Forsaga málsins er sú að samkeppnisráð tók ákvörðun þann 28. október 2004 og komst að þeirri niðurstöðu að Olís, Skeljungur og Olíufélagið hefðu framið alvarleg brot á samkeppnislögum. Samkeppnisráð ákvað að leggja verulegar sektir á félögin. Olíufélögin kærðu ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp úrskurð 31. janúar 2005. Með þeim úrskurði lauk málsmeðferð samkeppnisyfirvalda. Áfrýjunarnefnd staðfesti í öllum aðalatriðum niðurstöðu samkeppnisráðs um brotin en lækkaði sektir og taldi hæfilegt að þær næmu samtals 1,5 milljarði kr. Síðar á árinu 2005 skutu olíufélögin úrskurði áfrýjunarnefndar til héraðsdóms og liggur niðurstaða hans fyrir í dag. Héraðsdómur staðfestir að olíufélögin höfðu með sér ólögmætt samráð og brutu gegn samkeppnislögum enda þótt hann telji að fella beri niður sektir af öðrum ástæðum.

Umrædd brot olíufélaganna eru umfangsmestu samráðsbrot sem upprætt hafa verið hér á landi. Stóð skipulögð brotastarfsemi olíufélaganna óslitið frá a.m.k. árunum 1993 til ársloka 2001 og er í ákvörðun samkeppnisráðs gerð grein fyrir um 500 samráðstilvikum. Í málflutningi sínum lögðu olíufélögin mikla áherslu á að dregið hafi úr samráði félaganna á seinni hluta samráðstímabilsins. Áfrýjunarnefnd féllst á það með samkeppnisráði að svo hafi ekki verið. Taldi nefndin að samráðið hafi verið mun alvarlegra, skipulagðara og tíðara á tímabilinu 1996-2001 en á tímabilinu 1993-1995. Samráð olíufélaganna skiptist í aðalatriðum í þrjá höfuðflokka:

  • Samráð um verðlagningu á fljótandi eldsneyti, gasi, smurolíu og tengdum vörum. Höfðu félögin reglubundið samráð um verðbreytingar á þessum olíuvörum. Þau höfðu einnig samráð um að hækka álagningu og auka framlegð. Félögin höfðu einnig samvinnu um að draga úr afslætti og leggja gjöld á hópa viðskiptavina. Bitnuðu þessi brot á almennum neytendum og fyrirtækjum.

  • Olíufélögin höfðu með sér umfangsmikið samráð um gerð tilboða í tengslum við formleg útboð eða verðkannanir viðskiptavina sinna. Dæmi um þolendur þessa samráðs olíufélaganna voru Reykjavíkurborg, Síminn, Landhelgisgæslan, Icelandair, Flugfélag Íslands, dómsmálaráðuneytið og Vestmannaeyjabær. Hafði samráð þetta m.a. þann tilgang að vinna gegn því að viðskiptavinir næðu hagstæðara verði með útboðum.

  • Olíufélögin gripu til margs konar aðgerða í því skyni að skipta á milli sín markaðnum fyrir olíuvörur hér á landi. Aðgerðirnar miðuðu að því að skipta á milli félaganna markaðnum eftir landsvæðum, viðskiptavinum eða eftirsölu og magni. Félögin náðu t.d. samkomulagi um að Skeljungur myndi sitja einn að bensínsölu í Grindavík og þau skiptu með sér viðskiptum t.d. á Ísafirði og Stykkishólmi. Þá skiptu þau á milli sín sölu til stórra viðskiptavina eins t.d. gagnvart álverinu í Straumsvík og SR-mjöli. Þetta gerðu þau án vitneskju viðkomandi viðskiptavina.

Til að framkvæma þetta samráð áttu olíufélögin í tíðum og skipulögðum samskiptum sín á milli. Stjórnendur olíufélaganna tóku þátt í fundahöldum, m.a. hittust forstjórar félaganna iðulega til að skipuleggja og taka ákvarðanir um atriði sem voru hluti af hinu ólöglega samráði. Þá var skipst á orðsendingum og upplýsingum sem vörðuðu samráðið í tölvupósti, símtölum eða símbréfum. Var félögunum fyllilega ljóst að um ólögmæta háttsemi var að ræða enda var að finna í gögnum málsins fyrirmæli um leynd og eyðingu sönnunargagna.

Samráð olíufélaganna fól í sér að beita ólögmætum aðferðum til að hagnast sem mest á kostnað neytenda og allra þeirra fyrirtækja sem nýttu olíuvörur í rekstri sínum á þessum tíma. Í úrskurði áfrýjunarnefndar er gerð grein fyrir miklum ólögmætum ávinningi olíufélaganna af þessum brotum og rökstutt að þau hafi verið til þess fallin af valda talsverðum skaða í samfélaginu.

Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur í dag er staðfest að olíufélögin hafi haft með sér ólögmætt samráð og bendir dómurinn á að „samráð leiði ávallt til ávinnings“. Vísar héraðsdómur til dóma Hæstaréttar þar sem þolendum samráðs olíufélaganna hafa verið dæmdar skaðabætur vegna tjóns sem þeir urðu fyrir.

Sú niðurstaða héraðsdóms að fella engu að síður úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar byggir á þeirri einu forsendu að olíufélögin hafi ekki notið með fullnægjandi hætti svokallaðs andmælaréttar í máli sínu vegna þess lagaumhverfis sem í gildi var á þeim tíma er mál þeirra var til rannsóknar. Ekki eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð samkeppnisyfirvalda sem slíka eða þær efnislegu niðurstöður um samráð olíufélaganna og afleiðingar þess sem samkeppnisyfirvöld komust að.

Nánar tiltekið bendir héraðsdómur á að mál olíufélaganna hafi á tímabili verið til rannsóknar samtímis hjá samkeppnisyfirvöldum og hjá efnahagsbrotadeild lögreglunnar. Það fyrirkomulag eitt og sér virðist, að mati héraðsdóms, hafa leitt til þess að félögin hafi ekki getað nýtt sér andmælarétt þar sem þau hafi átt það á hættu að upplýsingar sem þau veittu samkeppnisyfirvöldum kynnu að rata á borð lögregluyfirvalda og verið notaðar gegn þeim þar, eins og segir í forsendum dómsins. Orðrétt segir að „við þessar aðstæður var andmælaréttur stefnenda lítils virði“. Á þetta er ekki unnt að fallast: •

  • Olíufélögin komu öll í raun og veru að umfangsmiklum andmælum, bæði skriflega og munnlega, fyrir samkeppnisráði og áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

  • Ekki hefur verið bent á hver þau sjónarmið voru sem félögin vildu koma að í málinu til viðbótar en gátu ekki vegna þess að mál þeirra var á tímabili til rannsóknar á tveimur stöðum.

  • Ekki er útskýrt í forsendum héraðsdóms gegn hvaða lagareglum eða –sjónarmiðum það brýtur að mál fyrirtækja geti samtímis verið til meðferðar fyrir stjórnvaldi og lögreglu. Bent var á í málinu að sú staða ein og sér að mál sé samhliða til meðferðar á tveimur stöðum fer ekki gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu eða íslenskra laga og var því til stuðnings vísað til umfjöllunar helstu fræðimanna á þessu sviði hér á landi.

  • Í forsendum héraðsdóms er talsvert vísað til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 92/2007 sem varðaði ákærur sem gefnar voru út á hendur forstjórum olíufélaganna. Það mál varðaði réttarstöðu einstaklinga í refsimáli sem rekið var á hendur þeim. Sú staða er gerólík réttarstöðu fyrirtækja eða lögaðila í stjórnsýslumáli af því tagi sem hér um ræðir.

  • Olíufélögunum var ítrekað gefinn kostur á að tjá sig um alla þætti málsins meðan það var til rannsóknar, það samráð sem talið var ólögmætt og hverju það varðaði. Fyrirtækjum er frjálst að ákveða hvort þau nýta sér slíkan rétt. Samkeppnisyfirvöld beittu hvorki olíufélögin sjálf né neina starfsmenn þeirra neins konar þvingunum til að gefa upplýsingar enda er ekki á neitt slíkt bent í forsendum héraðsdóms.

Með vísan til þessa telja samkeppnisyfirvöld nú sem fyrr að rannsókn á máli olíufélaganna og málsmeðferðin öll hafi verið vönduð, réttinda málsaðila hafi verið gætt í hvívetna og því er ekki unnt að fallast á forsendur héraðsdóms fyrir því að málsmeðferðin hafi verði haldin ágalla vegna andmælaréttar sem leiði til ógildingar hans. Af þeim sökum mun dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verða áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Bakgrunnsupplýsingar:

Þann 18. desember 2001 framkvæmdi Samkeppnisstofnun húsleit hjá Olís, Olíufélaginu og Skeljungi vegna gruns um alvarleg brot á samkeppnislögum. Olís og Skeljungur töldu þessa rannsóknaraðgerð ólögmæta og kærðu málið til dómstóla. Í dómum Hæstaréttar frá maí 2002 var ekki fallist á kröfur fyrirtækjanna og hélt því rannsókn Samkeppnisstofnunar áfram. Í febrúar 2002 hafnaði viðskiptaráðherra þeirri kröfu Verslunarráðs Íslands að ráðherra framkvæmdi athugun á rannsókn Samkeppnisstofnunarog að stofnunin skilaði þeim gögnum sem hún lagði hald á í húsleitinni.

Í mars 2002 ritaði Olíufélagið Samkeppnisstofnun bréf þar sem boðin var aðstoð við að upplýsa málið. Hið sama gerðu Olís og Skeljungur í kjölfarið. Olíufélögin óskuðu einnig eftir því að málinu yrði lokið með sátt en þær viðræður skiluðu ekki árangri.

Með ákvörðun sinni frá október 2004 taldi samkeppnisráð hæfilegt að Olíufélagið myndi greiða 1,1 milljarð kr. í sekt. Hún var hins vegar lækkuð í 605 m. kr. vegna verulegrar aðstoðar félagsins við að upplýsa málið. (Beitti samkeppnisráð þar reglum samkeppnisréttarins um niðurfellingu eða lækkun sekta í samráðsmálum en tilgangur slíkra reglna er að skapa hvata hjá fyrirtækjum til að upplýsa um slík alvarleg brot og draga þannig úr tjóni samfélagsins af háttseminni.) Sekt á Olís var talin hæfileg 1.1 milljarður kr. en lækkuð í 880 m. kr. vegna aðstoðar við upplýsa málið. Sekt Skeljungs var einnig ákveðin 1,1 milljarður kr. en samkeppnisráð hafnaði því að lækka hana þar sem félagið hefði í reynd enga aðstoð veitt.

Áfrýjunarefnd samkeppnismála taldi ástæðu til að lækka þær sektir sem samkeppnisráð hafði ákvarðað. Þannig ákvað áfrýjunarnefnd sekt á hendur Olíufélaginu að fjárhæð 900 m. kr. Vegna umræddrar aðstoðar við að upplýsa málið var sektin lækkuð og Olíufélaginu gert að greiða 490 m.kr. Olís var ákvörðuð 700 m.kr. sekt og var sú sekt lækkuð niður í 560 m.kr. vegna aðstoðar félagsins við að upplýsa málið. Skeljungi var gert að greiða 450 m.kr. Dómur héraðsdóms, standi hann óhaggaður, leiðir hins vegar til þess að þessar sektir falla niður.

Samráð olíufélaganna olli viðskiptavinum þeirra tjóni. Þetta hefur leitt til þess að dómstólar hafa dæmt viðskiptavinum félaganna bætur. Hæstiréttur hefur þannig dæmt félögin til þess að greiða Reykjavíkurborg um 72 m. kr., Strætó bs. tæpar 6 m. kr. og Vestmannaeyjabæ um 14 m. kr. Þá hefur rétturinn dæmt einstaklingi 15 þúsund kr. í bætur. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að félögin hafi greitt bætur vegna samráðs til álversins í Straumsvík, Icelandair og hátt í hundrað einstaklinga sem óskuðu liðsinni Neytendasamtakanna. Fyrir dómstólum er nú rekið skaðabótamál íslenska ríkisins gagnvart félögunum vegna samráðs vegna viðskipta við opinberra aðila.