5.7.2012

Starfsemi Reiknistofu bankanna bundin skilyrðum

Stuðlar að virkari samkeppni á fjármálamarkaði og upplýsingatæknimarkaði

Reiknistofa bankanna og TerisSamkeppniseftirlitið hefur nú lokið rannsókn á tveimur málum er varða Reiknistofu bankanna. Í öðru málinu var framtíðarstarfsemi Reiknistofunnar og sameiginlegt eignarhald fjármálafyrirtækja á henni til skoðunar. Í hinu málinu voru kaup Reiknistofu bankanna á Teris (upplýsingafyrirtæki sparisjóðanna) til athugunar.

Reiknistofa bankanna og allir eigendur hennar, m.a. viðskiptabankar á Íslandi, hafa gert sátt við Samkeppniseftirlitið um lyktir þessara mála. Með henni undirgangast þessir aðilar ítarleg skilyrði sem tryggja eiga virkari samkeppni á fjármálamarkaði. Jafnframt eiga skilyrðin að tryggja að önnur upplýsingatæknifyrirtæki geti boðið fjármálafyrirtækjum þjónustu sína í samkeppni við Reiknistofu bankanna.

Skilyrði þessi eru birt í 13 tölusettum greinum í lok ákvörðunar nr. 14/2012, Undanþágubeiðni vegna starfsemi Reiknistofu bankanna hf. og samruni við Teris.

Meginatriði skilyrðanna eru þessi:

  • Ný og smærri fjármálafyrirtæki skulu eiga fullan aðgang að öllum kerfum og þjónustu Reiknistofunnar á sömu forsendum og eigendur hennar, en í þeim hópi eru stóru viðskiptabankarnir þrír langstærstir. Þetta er tryggt með skilyrðum um aðgangsreglur, verðskrá, bann við ómálefnalegum hindrunum eða mismunun og trúnað í umsóknarferli.
  • Girt er fyrir að samkeppnishamlandi samstarf keppinauta á fjármálamarkaði geti átt sér stað á vettvangi Reiknistofunnar. Þannig mega starfsmenn mismunandi fjármálafyrirtækja ekki sitja saman í stjórn og sameiginlegir notendahópar keppinauta á vettvangi Reiknistofunnar eru lagðir af. Þá er núverandi hluthöfum gert að bjóða eignarhluti í Reiknistofunni reglulega til sölu í því skyni að stuðla að því að Reiknistofan sé ekki einungis í eigu keppinauta á fjármálamarkaði.
  • Áskilið er að Reiknistofan sé rekin sem sjálfstætt fyrirtæki á eðlilegum arðsemisgrundvelli. Þannig eiga keppinautar á fjármálamarkaði að geta treyst því að sértækir hagsmunir eigenda Reiknistofunnar skapi ekki aðgangshindranir. Um leið eiga keppinautar Reiknistofunnar á upplýsingatæknimarkaði að geta treyst því að Reiknistofan keppi á eðlilegum rekstrarforsendum.
  • Upplýsingatæknifyrirtækjum er opnuð gátt til þess að keppa við Reiknistofuna um viðskipti við fjármálafyrirtæki.  Þetta er gert með því að skylda fjármálafyrirtæki sem eru hluthafar í Reiknistofunni til þess að framkvæma ávallt útboð eða verðkönnun þar sem leitað er hagstæðustu kjara við kaup á upplýsingatækniþjónustu. Fjármálafyrirtæki skulu setja sér ítarlegar verklagsreglur um þetta, tilnefna sérstaka tengiliði fyrir upplýsingatæknifyrirtæki og halda lista yfir seljendur sem boðið hafa þjónustu.
  • Komið er í veg fyrir að mismunandi skattaleg meðferð á upplýsingatækniþjónustu hafi áhrif á það hverjir geti keppt um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þannig skal verkkaupi, þ.e. fjármálafyrirtæki í hluthafahópi Reiknistofunnar, skilgreina strax í upphafi hvernig meðferð virðisaukaskatts af þjónustunni skuli háttað, óháð því hver verkseljandinn er.

Í ákvörðuninni er jafnframt kveðið á um viðvarandi eftirlit með skilyrðunum. Þannig skal tilefna óháðan kunnáttumann til að hafa eftirlit með skilyrðunum.

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins:

„Virk samkeppni á fjármálamarkaði skiptir miklu máli fyrir fyrirtæki og almenning á Íslandi. Þess vegna eru þau skilyrði sem nú hafa verið sett fyrir starfsemi Reiknistofu bankanna mikið fagnaðarefni, því þau ryðja úr vegi eða draga úr hættu á ýmis konar samkeppnishindrunum.

Einnig ber að fagna því að Reiknistofan og eigendur hennar stuðluðu að lausn málsins með því að fallast á að lúta þeim skilyrðum sem nú hafa verið sett.“

Bakgrunnsupplýsingar:

Fyrri athuganir Samkeppniseftirlitsins sem tengjast máli þessu

Samkeppniseftirlitið hefur á liðnum árum fjallað í nokkrum málum um samkeppnisaðstæður á fjármálamarkaði. Eitt meginmarkmið þessara athugana hefur verið að draga úr aðgangshindrunum inn á fjármálamarkaðinn, sem m.a. kunna að leynast í grunnkerfum markaðarins, þ.e. þeirri umgjörð sem honum er sett. Sumar þessara athugana og aðgerða eru undanfarar þeirrar ákvörðunar sem hér er kynnt. Skal þetta útskýrt nánar:

Í ákvörðun nr. 4/2008 viðurkenndi Greiðslumiðlun hf. að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust gegn nýjum keppinauti (PBS/Kortaþjónustan). Greiðslumiðlun og Kreditkort viðurkenndu að hafa haft með sér langvarandi og víðtækt ólögmætt samráð og Fjölgreiðslumiðlun viðurkenndi að hafa tekið þátt í því og þar með einnig að hafa brotið gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishömlum samtaka fyrirtækja. Féllust fyrirtækin á að greiða stjórnvaldssektir vegna þessa.

Ennfremur féllust fyrirtækin á að gera margháttaðar breytingar á skipulagi og starfsemi sinni til þess að koma í veg fyrir frekari brot á samkeppnislögum. M.a. skuldbatt Fjölgreiðslumiðlun sig til þess að óska undanþágu samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga vegna samstarfs sem aðildarfyrirtæki Fjölgreiðslumiðlunar teldu nauðsynlegt að fram færi á vegum félagsins, vegna t.d. sjónarmiða tengdum öryggi og hagræðingu.

Sú undanþágubeiðni barst Samkeppniseftirlitinu í maí 2008. Hófst þá ítarleg rannsókn á starfsemi Fjölgreiðslumiðlunar með það að markmiði að afmarka hvort og til hvaða þátta starfsemin gæti tekið til framtíðar. Í þeirri rannsókn sendi Samkeppniseftirlitið umræðuskjal til allra helstu hagsmunaaðila sem tengdust starfsemi félagsins. Aflaði Samkeppniseftirlitið m.a. greiningar utanaðkomandi óháðra sérfræðinga í þessu efni.

Samhliða þessari vinnu átti sér stað stefnumótun á vettvangi fjármálafyrirtækja um framtíðarskipan grunnkerfa fjármálamarkaðar. Lyktir þeirrar vinnu voru m.a. að Seðlabanki Íslands myndi hverfa frá Reiknistofu bankanna sem eignaraðili en eignast þess í stað alfarið Greiðsluveituna hf. sem reist yrði á grunni Fjölgreiðslumiðlunar. Það fyrirtæki myndi halda utan um sum mikilvægustu grunnkerfi fjármálamarkaðar, en mikilvæg upplýsingatækniþjónusta yrði áfram í Reiknistofu bankanna, sem breytt yrði í hlutafélag og framvegis rekið sem upplýsingatæknifyrirtæki í eignarhaldi fjármálafyrirtækja eins og lýst verður nánar í þessu skjali.

Vegna þessara breytinga barst Samkeppniseftirlitinu samrunatilkynning, dags. 18. nóvember 2010, vegna yfirtöku Seðlabanka Íslands á Greiðsluveitunni (áður Fjölgreiðslumiðlun). Jafnframt var Samkeppniseftirlitinu gerð grein fyrir því að því yrði send undanþágubeiðni vegna stofnunar hlutafélags um rekstur Reiknistofu bankanna, sbr. 15. gr. samkeppnislaga.

Þessar sviptingar breyttu forsendum áðurgreindrar rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á undanþágubeiðni vegna Fjölgreiðslumiðlunar. Lyktaði þeirri rannsókn í raun með ákvörðun nr. 2/2011, Yfirtaka Seðlabanka Íslands á Fjölgreiðslumiðlun hf. (nú Greiðsluveitunni hf.), en í þeirri ákvörðun voru starfsemi Greiðsluveitunnar hf. sett ítarleg skilyrði sem miðuðu að því að tryggja að öll fjármálafyrirtæki, bæði núverandi og ný, gætu tengst kerfum hennar og notið nauðsynlegrar þjónustu á gagnsæjum og málefnalegum forsendum. Með þessu var stuðlað að því að ekki gætu skapast að nýju aðgangshindranir fyrir ný og smærri fyrirtæki á þessum vettvangi.

Undanþágubeiðni vegna framtíðarstarfsemi Reiknistofu bankanna hf. barst Samkeppniseftirlitinu síðan þann 23. febrúar 2011, auk þess sem Samkeppniseftirlinu barst samrunatilkynning vegna kaupa Reiknistofu bankanna hf. á hluta af eignum Teris, sbr. bréf dags 31, janúar 2012. Fjallað er um rannsóknir vegna þessara mála í ákvörðun þeirri sem hér er kynnt. Við rannsóknina hefur Samkeppniseftirlitið m.a. stuðst við þá þekkingu og reynslu sem það hefur aflað við rannsókn þeirra mála, sem hér voru rakin.