31.10.2012

Aukin samkeppni er forsenda framleiðniaukningar

Samkeppniseftirlitið þarf aukið fjármagn til starfsemi sinnar

Skýrsla McKinsey

Merki McKinsey & CompanySamkeppniseftirlitið tekur undir með ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company sem segir í skýrslu sinni um hagvaxtarmöguleika á Íslandi („Charting a Growth Path for Iceland“) að samkeppni sé lykill að aukinni framleiðni. Segir í skýrslunni að samkeppnin stuðli að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta, hvetji stjórnendur til að hagræða í rekstri og leiði til nýrra hugmynda, nýsköpunar og tækninýjunga.

Í skýrslu McKinsey kemur fram að hlutur innlendrar þjónustustarfsemi í landsframleiðslu sé 65%. Þessi starfsemi sé að mestu varin fyrir erlendri samkeppni og framleiðni sé lág. Til að bæta lífskjör á Íslandi sé nauðsynlegt að auka framleiðni í innlendri þjónustustarfsemi. Það sé best gert með því að leyfa samkeppni að njóta sín, opna markaði og fá inn erlenda keppinauta. McKinsey vísar sérstaklega í því efni til skýrslna Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008 Öflug uppbygging markaða og nr. 2/2011 Samkeppnin eftir hrun þar sem fram koma yfir 100 tillögur að opnun einstakra markaða. McKinsey hvetur stjórnvöld og hagsmunaðila til að vinna með Samkeppniseftirlitinu að því að opna markaði með þeim hætti sem lýst er í framangreindum skýrslum eftirlitsins. Væntir Samkeppniseftirlitið þess að bæði opinberir aðilar og fyrirtæki taki vel í þessi tilmæli og leggist á eitt með eftirlitinu að gera nýjum og minni fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi og dafna í íslensku atvinnulífi.

McKinsey leggur í skýrslu sinni sérstaka áherslu á að miklar skuldir fyrirtækja og skortur á einkafjármagni geti haft neikvæð áhrif á samkeppni til skemmri og lengri tíma. Of mikil skuldsetning geti leitt til sóunar og óhagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta. McKinsey telur mikilvægt að stjórnvöld búi svo um hnútana að samkeppnisyfirvöld hafi yfir þeim tækjum og fjármagni að ráða sem dugi til að koma í veg fyrir neikvæðar langtímaafleiðingar af þessu sérstaka ástandi. Núverandi staða, með of löngum tíma til rannsóknar mikilvægra samkeppnismála, skapi mikla óvissu í rekstri margra fyrirtækja.

McKinsey telur að vegna smæðar landsins hafi Samkeppniseftirlitið mikilvægu hlutverki að gegna við að rata hinn gullna meðalveg á milli stærðarhagkvæmni fyrirtækja og neytendaverndar. Samkeppniseftirlitið verði að sýna ákveðinn sveigjanleiki í því mati sínu, sér í lagi er varðar samrekstur keppinauta á mikilvægum kerfum í fjármagnsfrekum atvinnugreinum.

Í niðurstöðu skýrslu sinnar ítrekar McKinsey nauðsyn þess að mikilvægar stofnanir hafi yfir því fjármagni að ráða sem geri þeim kleift að takast á við þær krefjandi aðstæður sem nú ríkja á Íslandi. Samkeppniseftirlitið tekur heilshugar undir þetta. Ef fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 nær óbreytt fram að ganga munu raunframlög til hefðbundinna verkefna Samkeppniseftirlitsins hafa lækkað um fjórðung frá 2008. Þær fjárheimildir sem eftirlitinu eru ætlaðar duga engan veginn til að takast á við þær krefjandi aðstæður sem McKinsey lýsir í skýrslu sinni.

Sjá skýrslu McKinsey & Company (104 bls. PDF skjal).