7.2.2013

Veik samkeppnisstaða minni fjármálafyrirtækja

Mynd af fimmþúsundkróna seðlumSamkeppniseftirlitið birti í dag skýrsluna „Fjármálaþjónusta á krossgötum“. Í skýrslunni eru reifuð sjónarmið Samkeppniseftirlitsins um fjármálamarkaðinn og verkefni eftirlitsins á því sviði. Í skýrslunni er sjónum beint að þrennu:

  • Í fyrsta lagi er fjallað um stærð og umgjörð banka og fyrirtækja síðastliðinn aldarfjórðung, samþjöppun, rekstrarkostnað, samruna og samstarf.
  • Í öðru lagi er gerð grein fyrir samkeppnisaðhaldi, þ.e. möguleikum bæði minni og óstofnaðra fjármálafyrirtækja til að keppa við Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann.
  • Í þriðja lagi er fjallað sérstaklega um verðbréfaþjónustu og einstaka markaði hennar, svo sem fyrirtækjaráðgjöf, eignastýringu og miðlun. Í því efni er einnig hugað að aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi.

Hér að neðan eru nokkur atriði úr skýrslunni:

Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn í lykilhlutverki í viðskiptalífinu

Með kröfum sínum á skuldsett og nýendurskipulögð fyrirtæki landsins eru Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn eru í lykilhlutverki í viðskiptalífinu. Á þessu stigi verður ekki séð að áhrif banka á fyrirtæki hafi leitt til hringamyndunar, þ.e. nets fyrirtækja sem hafi með sér víðtækt samstarf. Tryggja verður að það tómarúm sem árin eftir hrun hafa skapað í eignarhaldi fyrirtækja leiði ekki að lokum til stofnunar stórra viðskiptasamsteypa með víðtækum stjórnunar- og eignatengslum sem hamla samkeppni.

Hár rekstrarkostnaður banka

Rekstrarkostnaður bankanna á föstu verði hefur aukist verulega á hverju ári frá hruni. Rekstur 14 lánastofnana árið 2011 kostaði 30% meira á föstu verði en rekstur 32 lánastofnana fyrir áratug síðan og jafnast á við tvo Landsspítala í dag. Að mati Samkeppniseftirlitsins gefur þetta til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt því samkeppni hvetur fyrirtæki til hagræðingar. Viðskiptavinir bankanna greiða rekstrarkostnaðinn dýru verði með óhagstæðum viðskiptakjörum. Mikill vaxtamunur í alþjóðlegu samhengi leggst þungt á heimili og fyrirtæki og dregur úr samkeppnishæfni hagkerfisins.

Leiðin út úr vandanum er samkeppni en ekki samrunar

Sá vandi sem endurspeglast í háum rekstrarkostnaði bankanna og þar með háum vaxtakostnaði heimila og fyrirtækja er mikill og ekki auðleystur. Einn möguleiki sem oft er nefndur í þessu sambandi er samruni tveggja af stóru bönkunum. Samkeppniseftirlitið hefur talað mjög skýrt um það að samrunar stærri banka séu ekki lausn á þessum vanda. Skert samkeppni sem myndi að líkindum fylgja slíkum samrunum, myndi þvert á móti skaða neytendur og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Afstaða Samkeppniseftirlitsins til aukinnar samvinnu banka, með það að augnamiði að hagræða, hefur einnig verið skýr. Slík samvinna kemur vel til álita, en þó því aðeins að hún skerði ekki hvata banka til að keppa sín á milli þar sem samkeppni er neytendum og viðskiptavinum til góðs. Í því samhengi má benda á sátt sem Samkeppniseftirlitið gerði við Reiknistofu bankanna og eigendur hennar um starfsemi fyrirtækisins.

Aukin samkeppni er lykillinn að hagræðingu og aukinni framleiðni í bankastarfsemi á Íslandi að mati Samkeppniseftirlitsins. Samkeppni stuðlar að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta, hvetur stjórnendur til að hagræða í rekstri og leiðir til nýrra hugmynda, nýsköpunar og tækninýjunga.

Talsverðar aðgangshindranir eru á markaðnum

Talsverðar aðgangshindranir eru á fjármálamarkaði. Hertar reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja og aukið eftirlit leiða til þess að erfiðara er fyrir smærri fyrirtæki að starfa, enda er meginreglan sú að sömu kröfur eru gerðar til fyrirtækja óháð stærð, umfangi og áhættu. Hár upplýsingatæknikostnaður gerir smærri fjármálafyrirtækjum einnig erfitt fyrir, auk þess sem rík tengsl viðskiptabanka við einstök atvinnufyrirtæki og atvinnulífið í heild sinni skapa viðskiptabönkunum forskot. Þá hefur aðgangur að greiðslumiðlunar- og greiðslukortamarkaði ekki alltaf verið greiður Einnig fylgir mikill kostnaður og fyrirhöfn því fyrir viðskiptamenn að skipta um banka.

Mikill aflsmunar gætir á fjármálamarkaði

Mikils aflsmunar gætir milli stóru bankanna og minni fjármálafyrirtækja. Stóru bankarnir eru í sterkri stöðu þar sem þeir geta boðið viðskiptavinum upp á alhliða þjónustu. Þeir gnæfa yfir aðra keppinauta sé litið til stærðar efnahagsreiknings og umsvifa. Í krafti stærðar geta þeir boðið fjölbreyttara úrval þjónustu, verð og skilmála sem minni fyrirtæki eiga erfitt með að keppa við.

Kaupendur ráðgjafarþjónustu tengdir stóru bönkunum

Rannsókn á 90 ráðgjafarverkefnum fjármálafyrirtækja leiðir í ljós að í um 70% af verkefnum fyrirtækjaráðgjafar stóru bankanna eru kaupendur þjónustunnar tengdir viðkomandi banka, í gegnum eignartengsl eða að banki sé stærsti kröfuhafi eða aðalþjónustuaðili viðkomandi fyrirtækis. Þá er athyglisvert að tiltölulega fá þessara 90 verkefna hafa verið boðin út, jafnframt því sem verðkannanir og ferli við val á ráðgjafa virðist ófullburða. Þessi staða hefur leitt til mikillar tortryggni, sem endurspeglast í mörgum kvörtunum og ábendingum til Samkeppniseftirlitsins.

Bönkunum ber að gæta þess að skerða ekki samkeppni með ómálefnalegum hætti

Við þessar aðstæður ber stóru viðskiptabönkunum þremur að gæta þess sérstaklega að þeir skerði ekki samkeppni með ómálefnalegum hætti. Málefnalegt kann að vera í mörgum tilvikum að semja um ráðgjöf við viðskiptabanka sem getur boðið upp á heildarviðskipti. Vöndlun eða samtvinnun þjónustuþátta eða niðurgreiðsla á tilteknum verkþáttum getur hins vegar farið gegn samkeppnislögum séu fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu.

Aðskilnaður gæti aukið samkeppni

Mynd af krónupeningumHuga ber að samkeppnisaðstæðum og stöðu verðbréfamarkaðar þegar ákvörðun er tekin um uppbyggingu fjármálakerfisins, þ.á m. við ákvörðun um tengsl viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Út frá samkeppnissjónarmiðum standa rök til þess að aðskilja, a.m.k. rekstrarlega, þóknanadrifin svið bankannafrá lánasviðum, þannig að viðkomandi dótturfyrirtæki bankanna séu sjálfstæð bæði í orði og á borði. Þetta gæti m.a. átt við um fyrirtækjaráðgjöf og miðlun. Á þann hátt myndi fjármagnið til verkefna áfram koma frá bönkum en meiri samkeppni myndi ríkja um ráðgjöf og miðlun til fjárfesta. Slíkt væri tilraun til að skilja á milli þeirra sem veita lán og þeirra sem veita ráðgjöf og þannig til þess fallið að gæta betur hagsmuna viðskiptavinarins. Þessi rök þarf að vega saman við önnur rök sem varða hagkvæmni og öryggi fjármálamarkaðar og öflugt atvinnulíf.

Í skýrslunni eru nefndar fjölmargar æskilegar aðgerðir vegna ónógrar samkeppni, m.a.:

  • Mikilvægt er að fylgjast með stjórnunar og eignatengslum í viðskiptalífinu og grípa til aðgerða, ef þörf krefur, gegn valdasamþjöppun sem takmarkað getur samkeppni. 
  • Koma þarf áfram í veg fyrir að bankar myndi net fyrirtækja með viðskiptatengslum sín á milli. Í því skyni hefur Samkeppniseftirlitið bönkum skilyrði við yfirtöku á fyrirtækjum. Ákveða þarf hvernig áframhaldandi aðhaldi verði háttað þegar eignarhaldi bankanna á fyrirtækjum lýkur. 
  • Tryggt verði að unnt sé að afla upplýsinga um raunverulega eigendur fyrirtækja í atvinnurekstri, t.d. með gagnsæi í skráningu á eignarhlutum í eignarhaldsfélögum eða í ársreikningum.
  • Afar mikilvægt er að stóru viðskiptabankarnir þrír tryggi að starfsemi þeirra sé í hvívetna í samræmi við samkeppnislög. Bönkunum ber að tryggja að möguleg  sameiginleg markaðsráðandi staða sé ekki misnotuð eða samkeppni ekki hindruð að öðru leyti.
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, fjármála- og efnahagsráðhera og Fjármálaeftirlitið hugi að samkeppnisstöðu minni fjármálafyrirtækja. Tilhneigingar virðist gæta til að setja öll fjármálafyrirtæki undir sama hatt, óháð stærð þeirra og eðli. Slíkar auknar kröfur, án þess að eðli eða áhrif starfseminnar á fjármálastöðugleika krefjist þess, geta leitt til aukins kostnaðar minni fjármálafyrirtækja og minnkað samkeppnislegt aðhald þeirra.
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, efnahags- og fjármálaráðherra og innanríkisráðherra geri gangskör að því að auka neytendavernd á fjármálamarkaði og draga úr skiptikostnaði.
  • Mikilvægt er að stóru viðskiptabankarnir geti í hverju tilfelli sýnt fram á málefnalega verðlagningu á einstökum þjónustuþáttum, rekjanleika þóknana og að aðkoma að samningsgerð sé hafin yfir vafa. Jafnframt er mikilvægt að tengdir viðsemjendur þeirra geti í hverju tilfelli sýnt fram á málefnalegt val á fyrirtækjaráðgjöf.
  • Fjárfestar, t.d. lífeyrissjóðir, ættu að huga að því að að gera meiri kröfur um óhæði einstakra sviða stóru bankanna og minnka þar með hagsmunaárekstra og auka trúverðugleika. Hér er vísað til þess að dæmi eru um að bankar hafi „fjóra hatta“ í aðkomu sinni að fyrirtæki; sem kröfuhafi, hluthafi, mögulegur fjárfestir í verkefni fyrirtækisins og ráðgjafi við sölu. Kínamúrar koma ekki í veg fyrir þau vandkvæði sem felast í slíku fyrirkomulagi.
  • Íslandsbanki selji hlut sinn í Íslenskum verðbréfum eins fljótt og unnt er vegna þeirra hagsmunaárekstra sem felast í því að næst stærsta eignarstýringarfyrirtæki landsins sé stærsti hluthafinn í þriðja stærsta fyrirtækinu.