12.2.2013

SFF misskilur boðskap Samkeppniseftirlitsins um rekstrarkostnað banka

- Viðbrögð SFF styðja við vísbendingar um að samkeppni sé áfátt

Samtök FjármálafyrirtækjaHár rekstrarkostnaður bendir til lítils samkeppnisaðhalds

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) gáfu út fréttatilkynningu í dag þar sem fram kemur það mat samtakanna að samanlagður rekstrarkostnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans hafi hækkað um fimm milljarða á árunum 2009-2011 að teknu tilliti til samruna og skatta. Það er svipað mati Samkeppniseftirlitsins í skýrslu nr. 1/2013 Fjármálaþjónusta á krossgötum þar sem segir að rekstrarkostnaður bankanna hafi aukist um 18 milljarða á verðlagi ársins 2012 en um helming aukningarinnar megi rekja til áhrifa samruna og 1,5 milljarð vegna fjársýsluskatts á laun og skattlagningar til fjármögnunar á rekstri Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara. Í útreikningum sínum hafði Samkeppniseftirlitið einnig tekið tillit til áætlaðs rekstrarkostnaðar 2012 sem metinn var út frá níu mánaða uppgjörum bankanna.

Umfjöllun SFF bendir ekki til að stóru viðskiptabankarnir þrír innan vébanda samtakanna hafi meðtekið þann boðskap sem Samkeppniseftirlitið vildi koma á framfæri með umfjöllun um rekstrarkostnað og vaxtamun banka. Stóru viðskiptabankarnir eru að stækka með yfirtökum og rekstrarkostnaður þeirra, með og án áhrifa samruna, að aukast. Athuganir Samkeppniseftirlitsins benda eindregið til þess að aðhald með rekstri þeirra sé minna en almennt í rekstri á öðrum sviðum hagkerfisins eftir hrun. Rekstrarkostnaður er þó aðeins einn þáttur í þessari mynd, þó hann gefi vissulega til kynna að samkeppnisaðhaldi á fjármálamarkaði sé áfátt. Aðeins virk samkeppni er líkleg til að knýja bankana til að deila ábata af hagræðingu með viðskiptavinum sínum.

Hár vaxtamunur leggst þungt á heimili og fyrirtæki

Samtökin gera vaxtasamanburð í skýrslunni að sérstöku umtalsefni. Af því tilefni bendir Samkeppniseftirlitið á að samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem kennd er við Liikanen voru aðeins nokkur lönd í A-Evrópu með vaxtamun sem var yfir 2% af heildareignum. Á flestum hinum Norðurlöndunum var þetta hlutfall undir 1% samanborið við liðlega 3% á Íslandi. Það verður að teljast ótrúverðugur málflutningur að þessi mikli munur sé eðlilegur og stafi aðeins af „aðferðum við bókfærslu“ endurmetinna lánasafna og háu hlutfalli innlána af heildarfjármögnun líkt og SFF gefur í skyn.

Hvað varðar áhrif endurmetnu lánasafnanna á vaxtamuninn þá þurfa bankarnir að sýna fram á að þessi áhrif hafi verið veruleg til þess að hnekkja þeim ályktunum sem fram koma í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Það hefur SFF ekki gert með neinum hætti. Í þessu sambandi skal það tekið fram að þær vaxtatekjur sem Samkeppniseftirlitið miðaði við innihalda ekki tekjuáhrif af endurmati á virði útlána og krafna sem er sérstakur liður í reikningum bankanna. Áhrif endurmats útlánasafnsins á vaxtatekjur eru því tiltölulega takmörkuð enda þótt þau séu vissulega til staðar vegna beitingar virkra vaxta við tekjufærslur er tengjast endurmetnu lánunum.

Hvað varðar innlánshlutfallið þá virðist mega skilja málflutning SFF svo að samtökin líti svo á að það sé eðlilegt að banki sem fjármagnar sig í ríkum mæli með innlánum ætti að vera með meiri vaxtamun en aðrir bankar. Slík röksemdafærsla er þversagnakennd því innlán eru almennt ódýrari fjármögnun fyrir banka heldur en skuldabréfaútgáfa á markaði og gefur tilefni til lægri útlánsvaxta á markaði ef samkeppni er virk. Ekki verður séð að hátt hlutfall innlánsfjármögnunar banka geti falið í sér réttlætingu á miklum vaxtamun. Rök bankanna í þessum efnum eru því veik.

Viðbrögð SFF styðja við vísbendingar um að samkeppni sé áfátt

Sérstaka athygli vekur að Samtök fjármálafyrirtækja standi að sameiginlegum viðbrögðum viðskiptabankanna við skýrslunni. Varhugavert verður að teljast að samtök af þessu tagi séu farvegur fyrir sjónarmið sem byggja á rekstrarupplýsingum bankanna og varða kjarna þeirrar samkeppni sem ríkja á milli þeirra samkvæmt samkeppnislögum. Þátttaka samtakanna í þessari umræðu styður við vísbendingar um að samkeppni á fjármálamarkaði sé áfátt, líkt og Samkeppniseftirlitið rekur í skýrslunni. Það bæri vott um heilbrigðara samkeppnisumhverfi á markaði fyrir viðskiptabankaþjónustu ef hver og einn viðskiptabankanna tæki þátt í umræðu af þessu tagi með sjálfstæðum hætti.