1.3.2013

Samkeppnislögin 20 ára

Kaka ársins 2013 - Mynd frá BakarameistaranumÍ dag, 1. mars, er 20 ár síðan samkeppnislög tóku gildi á Íslandi. Samkeppnislög voru fyrst sett á Alþingi 25. febrúar 1993 og síðan staðfest af frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta mánudaginn 1. mars 1993 en þá tóku þau gildi.

Samkeppnislögin voru sett m.a. í tengslum við gerð samningsins um evrópska efnahagssvæðið en Íslendingar samþykktu lög um samninginn í janúar 1993. Þegar samkeppnislögin tóku gildi voru Verðlagsstofnun og verðlagsráð lögð niður en Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð sett á laggirnar. Georg Ólafsson, sem gegnt hafði starfi verðlagsstjóra var skipaður forstjóri Samkeppnisstofnunar. Samkeppnislögum hefur allnokkrum sinnum verið breytt frá því að þau tóku fyrst gildi. Veigamest var breytingin sem tók gildi 1. júlí 2005. Samkeppnisstofnun var lögð niður og færðust verkefni stofnunarinnar annars vegar yfir til Samkeppniseftirlitsins og hins vegar Neytendastofu. Samkeppniseftirlitið hefur síðan framfylgt samkeppnislögum og hefur Páll Gunnar Pálsson verið forstjóri eftirlitsins frá stofnun þess.

Starfsmenn hjá eftirlitinu í dag eru 24 talsins. Eru þar á meðal lögfræðingar, hagfræðingar, viðskiptafræðingar og aðrir sérfræðingar. Verkefni eftirlitsins eru margvísleg en sjá má helstu verkefni eftirlitsins á þessari síðu hér.