14.3.2013

Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu um alvarleg brot Lyf og heilsu á samkeppnislögum

Mynd: Merki Lyf og heilsuMeð dómi Hæstaréttar í dag er staðfestur, með vísan til forsendna, dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Lyf og heilsa (L&h) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína þegar fyrirtækið greip til aðgerða sem beindust gegn Apóteki Vesturlands. Staðfest er að brotin hafi verið alvarleg miðað að því að hindra innkomu nýrrar lyfjaverslunar á markað, sem L&h sat áður ein að. Markmið aðgerðanna hafi verið að veikja hinn nýja aðila og raska samkeppni, sbr. forsendur héraðsdóms. Er einnig er staðfest að L&h beri að greiða 100.000.000 kr. í stjórnvaldssekt. 

Forsaga málsins er sú að Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á ætluðum brotum L&h með húsleit í september 2007. Rannsóknin hófst í kjölfar ábendinga um að fyrirtækið hefði gripið til aðgerða til að hindra að Apótek Vesturlands (AV), sem þá var nýstofnað, næði að hasla sér völl á Akranesi. 

Með ákvörðun nr. 4/2010 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að L&h hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína með skipulagðri atlögu gegn AV sem beinlínis hafði það að markmiði að raska samkeppni. Fólust aðgerðir L&h annars vegar í stofnun svonefnds vildarklúbbs sem var ætlað að tryggja að mikilvægir viðskiptavinir myndu ekki hefja viðskipti við AV. Hins vegar fólust aðgerðirnar í því sem L&h nefndu „baráttuafslætti“. Um var að ræða verulega afslætti á mikilvægum lyfjum og voru þeir aðeins í boði á Akranesi. Var þessum aðgerðum ætlað að koma AV út af markaðnum og senda skýr skilaboð til annarra aðila um að ekki borgi sig að reyna að keppa við L&h. Voru brotin talin alvarleg og var L&h gert að greiða 130.000.000 kr. stjórnvaldssekt. 

L&h skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld niður eða sektir lækkaðir verulega. Í júní 2010 staðfesti áfrýjunarnefnd hins vegar þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að L&h hefðu verið í markaðsráðandi stöðu og að aðgerðir fyrirtækisins hefðu falið í sér alvarleg brot á samkeppnislögum. Áfrýjunarnefndin taldi hæfilegar sektir kr. 100.000.000. 

L&h skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá febrúar 2012 var úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um brot L&h staðfestur. Hafnaði héraðsdómur einnig kröfu um lækkun sekta. 

Bakgrunnsupplýsingar: 

Sumarið 2007 hóf nýtt apótek á Akranesi, AV, samkeppni við apótek í eigu L&h sem var fyrir á staðnum. Í kjölfarið barst Samkeppniseftirlitinu ábending um að L&h hefðu gripið til aðgerða til að hindra að AV næði að hasla sér völl á Akranesi. Samkeppniseftirlitið ákvað að taka málið til rannsóknar og framkvæmdi húsleit hjá L&h þann 17. september 2007. 

  • Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að gögn málsins sýna að L&h urðu þess áskynja í lok ársins 2006 að fyrirhugað væri að opna nýtt apótek á Akranesi en L&h ráku á þessum tíma eina apótekið þar. Ljóst er að L&h höfðu skýran ásetning til þess að koma í veg fyrir þessa nýju samkeppni m.a. með eftirfarandi aðgerðum:
  • Fyrirsvarsmenn L&h höfðu samband við lyfjafræðinginn sem vann að stofnun AV og reyndu að fá hann til að hætta við opnun apóteks á Akranesi og gerast þess í stað starfsmaður L&h. Lyfjafræðingurinn hafnaði þessu tilboði. Innan L&h var rætt um að vera fyrri til og opna annað apótek á Akranesi (lágvöruverðsapótek). Var sagt að þetta myndi „girða alveg fyrir aðra samkeppni hér“. 
  • L&h beittu sér gagnvart Högum, eiganda Bónuss sem er í sama húsnæði og AV hafði tryggt sér sölupláss, í því skyni að hindra innkomu hins nýja keppinautar. 
  • Í samskiptum við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið beittu L&h sér gegn því að AV fengi lyfsöluleyfi. 

Þessar aðgerðir dugðu ekki til að koma í veg fyrir að AV hæfi starfsemi og gripu L&h þá til markaðslegra aðgerða gegn keppinautnum. Fólust þær annars vegar í stofnun svonefnds vildarklúbbs sem var ætlað að tryggja að mikilvægir viðskiptavinir myndu ekki hefja viðskipti við AV. Hins vegar fólust aðgerðirnar í því sem L&h nefndu „baráttuafslætti“. Um var að ræða verulega afslætti á mikilvægum lyfjum og voru þeir aðeins í boði á Akranesi. Umfang þessara afslátta var ákveðið með hliðsjón af fjárhagsstöðu AV sem L&h töldu veikburða keppinaut. Var tilgangur þessara aðgerða að hrekja hinn nýja keppinaut út af markaðnum. Framkvæmdastjóri L&h taldi í þessu samhengi í tölvupósti að AV „þolir þetta örugglega ekki lengi.“ Í öðrum tölvupósti framkvæmdastjórans til eigenda L&h sem sendur var 7. júlí 2007 var rætt um fyrirsvarsmann AV og aðgerðir gegn þessum nýja keppinauti og segir þar m.a.: 

„Mér finnst hæpið að hann hafi úthald lengi miðað við þessar forsendur en helst myndi ég vilja sjá lyfseðlafjölda hjá honum fara niður fyrir 30% þá er þetta örugglega búið. Hann tekur líklega á sig að vera launalaus eða launalítill einhverntíma en það gengur ekki til lengdar.“ 

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að umræddar markaðsaðgerðir hafi falið í sér alvarleg brot á samkeppnislögum þar sem um var að ræða skipulagða atlögu gegn nýjum keppinauti sem hafði beinlínis að markmiði að raska samkeppni. Voru aðgerðirnar til þess fallnar að senda skýr skilaboð til annarra aðila um að ekki myndi borga sig að reyna að keppa við L&h. Var þeim þannig ætlað að vernda og styrkja stöðu L&h á markaðnum. 

L&h tókst ekki að ryðja þessum keppinauti úr vegi. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var fjallað um þetta og vísað til þess að L&h breyttu hegðun sinni eftir húsleitina 17. september 2007. Eru taldar sterkar líkur á því að L&h hefðu náð að ryðja AV út af markaðnum ef fyrirtækið hefði talið sig hafa svigrúm til þess að nýta sér áfram hina efnahagslegu yfirburði sína gagnvart þessum keppinauti sínum.