22.4.2013

Ekki íhlutun í samruna Síldarvinnslunnar hf. og Bergs-Hugins ehf.

Málið leiðir til nýrrar athugunar á samvinnu Síldarvinnslunnar, Samherja og Gjögurs

Íslenskt fiskiskip í höfnSamkeppniseftirlitinu barst samrunatilkynning um kaup Síldarvinnslunnar hf. á öllu hlutafé í útgerðafélaginu Bergur-Huginn ehf. Bergur-Huginn rekur útgerð í Vestmannaeyjum og Síldarvinnslan er ein öflugasta útgerð landsins og rekur einnig vinnslu í landi.

Samrunaákvæði samkeppnislaga hafa þann tilgang að tryggja að sú samþjöppun á markaði sem stafað getur af samruna raski ekki samkeppni. Í máli þessu gilda einnig ákvæði laga um stjórn fiskveiða sem ætlað er m.a. að tryggja samkeppni í sjávarútvegi með því að vinna gegn því að aflaheimildir safnist á fáar hendur.

Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru fyrirtæki sem einnig stunda útgerð og fiskvinnslu. Annars vegar Samherji hf. og hins vegar Gjögur hf. Bæði fyrirtækin eiga fulltrúa í stjórn Síldarvinnslunnar en hvorugt fyrirtækjanna á meirihluta hlutafjár í Síldarvinnslunni. Í ljósi þessa eignarhalds ákvað Samkeppniseftirlitið að víkka út rannsóknina á samrunanum og leggja mat á hvort Samherji (eða eftir atvikum Samherji og Gjögur saman) hefðu yfirráð yfir Síldavinnslunni. Væri það raunin hefði hinn tilkynnti samruni í raun falið í sér samruna Bergs-Hugins við Síldarvinnsluna, Samherja og Gjögur. Saman hafa þessi fyrirtæki meiri aflahlutdeild en lög um stjórn fiskveiða heimila. Bæði Samherji og Síldarvinnslan hafa staðhæft að Samherji hafi ekki yfirráð yfir Síldarvinnslunni

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins, ákvörðun nr. 10/2013, er að ekki sé í ljós leitt að Samherji og Gjögur fari með yfirráð yfir Síldarvinnslunni í skilningi samkeppnislaga. Því er í málinu aðeins tekin afstaða til samkeppnislegra áhrifa þess samruna sem felst í kaupum Síldarvinnslunnar á Bergi-Hugin. Telur Samkeppniseftirlitið að sá samruni raski ekki samkeppni. Skiptir í því sambandi m.a. máli að samruninn hefur ekki áhrif á sterka stöðu Síldarvinnslunnar á markaði fyrir uppsjávarfisk og fyrirtækin eru ekki keppinautar í fiskvinnslu. Lýkur þar með rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samruna Síldarvinnslunnar og Berg-Hugins.

Framansögð niðurstaða um yfirráð yfir Síldarvinnslunni leiðir til þess að Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur eru keppinautar í skilningi samkeppnislaga. Rannsókn málsins hefur leitt í ljós umtalsverða samvinnu milli þessara fyrirtækja í útgerð, fiskvinnslu og sölu afurða. Þá eiga Samherji og Gjögur fulltrúa í stjórn Síldarvinnslunnar. Í ljósi þessa er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að óhjákvæmlegt sé að hefja nýtt stjórnsýslumál þar sem tekið verður til athugunar hvort Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samvinnu keppinauta.