24.4.2013

Tilmæli til Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps vegna kaupa á þjónustu við sorphirðu

Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun nr. 11/2013, Kvörtun Íslenska gámafélagsins ehf. vegna sorphirðufyrirkomulags frístundahúsa í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi. Í ákvörðuninni beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps að sveitarfélögin beiti útboðum, þar sem þeim verður við komið, eða verðkönnunum þegar þjónusta vegna sorphirðu er keypt. Mælst er til þess að gildistími samninga við þjónustuverktaka vegna sorphirðu sé ákvarðaður með hliðsjón af langtímahagsmunum sveitarfélaganna af því að örva samkeppni og þannig tryggja hagkvæma sorphirðu. Þá er mælst til þess að álit Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2009, Opinber útboð, samkeppni og samkeppnishindranir - Gátlisti til að forðast ólögmætar samkeppnishindranir, verði haft til hliðsjónar við ákvarðanir um sorphirðu sveitarfélaganna.      

Rannsókn málsins hófst í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitinu barst erindi frá Íslenska gámafélaginu ehf. Í erindinu var kvartað undan fyrirkomulagi sorphirðu við frístundahús í sveitarfélögunum í kjölfar útboðs þeirra á sorphirðu. Í erindinu kom fram að í kjölfar útboðsins hafi rekstraraðilum og eigendum frístundahúsa verið gert að beina viðskiptum sínum til þess þjónustuverktaka sem vann útboðið þyrftu þeir á sorphirðuþjónustu að halda. Með sorphirðuþjónustu í þessu samhengi er átt við þá þjónustu þegar sorp er sótt „upp að dyrum“. Íslenska gámafélagið taldi að þetta fyrirkomulag bryti í bága við 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 sem og b. lið 1. mgr. 16. gr. sömu laga. 

Var það mat Samkeppniseftirlitsins að útboð Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps á sorphirðu í sveitarfélögunum hafi ekki raskað samkeppni í skilningi 10. gr. eða b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið beinir hins vegar áður greindum tilmælum til sveitarfélaganna með það að markmiði að tryggja virka samkeppni til framtíðar í útboðum og innkaupum þeirra á þjónustu vegna sorphirðu.