16.5.2013

Samkeppniseftirlitið kveður á um fjárhagslegan aðskilnað vegna samkeppnisrekstrar heilbrigðisstofnana

Sýnataka á rannsóknarstofuSamkeppniseftirlitið hefur tekið ákvörðun nr. 12/2013, Fjárhagslegur aðskilnaður hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Í ákvörðuninni er kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað á milli þess hluta rekstrar heilbrigðisstofnananna á Vesturlandi, Suðurlandi og Austurlandi sem er í frjálsri samkeppni og þess hluta rekstrarins sem rekinn er með opinberum framlögum.

Samkeppniseftirlitið hefur lagt áherslu á það að koma í veg fyrir svokallaðar opinberar samkeppnishömlur, þ.e. að framkvæmd og lagasetning hins opinbera takmarki ekki samkeppni að óþörfu. Í þessu samhengi má meðal annars benda á skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi og álit eftirlitsins nr. 2/2009, Samkeppnismat stjórnvalda. Í 14. gr. samkeppnislaga er kveðið á um heimild Samkeppniseftirlitsins til að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað hjá opinberum fyrirtækjum eða fyrirtækjum sem starfa að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar. Mikilvægt er að tryggja að sá hluti rekstrar slíkra aðila sem er í frjálsri samkeppni sé ekki niðurgreiddur með fé úr þeim hluta rekstrarins sem nýtur opinbers einkaleyfis eða verndar. Ef það er ekki tryggt er hætta á því að samkeppni á markaði sé raskað og að fjármunum hins opinbera sé ekki nægjanlega vel varið.  

Rannsókn málsins hófst í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitinu barst erindi frá Vinnuvernd ehf. Vinnuvernd er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sértækri heilbrigðisþjónustu og heilsueflingu á vinnustöðum. Heilbrigðisstofnanirnar á Vesturlandi, Suðurlandi og Austurlandi hafa boðið fyrirtækjum upp á sambærilega þjónustu og Vinnuvernd veitir. Í erindi Vinnuverndar kom meðal annars fram að það væri mat fyritækisins að fjárhagslegur aðskilnaður væri ekki nægjanlega tryggður í rekstri heilbrigðisstofnananna. Var það mat Samkeppniseftirlitsins að kveða þyrfti formlega á um fjárhagslegan aðskilnað í málinu.