11.1.2008

Fréttatilkynning - Greiðslumiðlun, Kreditkort og Fjölgreiðslumiðlun fallast á að hafa brotið gegn bannákvæðum samkeppnislaga og greiða samanlagt 735 milljónir kr. í stjórnvaldssekt

Í kjölfar rannsóknar Samkeppniseftirlitsins hafa Greiðslumiðlun hf. (nú Valitor), Kreditkort hf. (nú Borgun) og Fjölgreiðslumiðlun hf. gert sátt við Samkeppniseftirlitið. Í sáttum þessum felst að Greiðslumiðlun viðurkennir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust að nýjum keppinauti (PBS/Kortaþjónustan). Í sáttunum felst einnig að Greiðslumiðlun og Kreditkort viðurkenna að hafa haft með sér langvarandi og víðtækt ólögmætt samráð. Tók Fjölgreiðslumiðlun að hluta til þátt í því. Í sátt Fjölgreiðslumiðlunar er einnig viðurkennt að félagið hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishömlum samtaka fyrirtækja. Fallast fyrirtækin á að greiða stjórnvaldssektir vegna þessa og breyta starfsemi sinni og háttsemi á markaði. Sekt Greiðslumiðlunar er 385 mkr., sekt Kreditkorts 185 mkr. og sekt Fjölgreiðslumiðlunar 165 mkr.

Forsaga málsins er sú að 13. júní 2006 gerði Samkeppniseftirlitið húsleit á starfsstöð Greiðslumiðlunar. Á grundvelli gagna sem fundust hjá Greiðslumiðlun var samdægurs framkvæmd leit hjá Kreditkorti. í tengslum við skoðun Samkeppniseftirlitsins á haldlögðum gögnum komu fram vísbendingar um möguleg brot Fjölgreiðslumiðlunar og var húsleit framkvæmd hjá því fyrirtæki þann 14. mars 2007.

Greiðslumiðlun sneri sér á síðasta ári til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Leiddu viðræður til þess að sátt var gerð við félagið 29. nóvember 2007. Kreditkort sneri sér einnig til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir því að sátt yrði gerð í málinu og var sátt við það félag undirrituð 19. desember 2007. Loks óskaði Fjölgreiðslumiðlun eftir sáttarviðræðum sem lauk með undirritun sáttar við félagið þann 7. janúar 2008. Sáttir þessar eru byggðar á 17. gr.a samkeppnislaga þar sem segir að hafi fyrirtæki gerst brotlegt við ákvæði laganna sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt.

Mál þetta varðar greiðslukortamarkaðinn og undirmarkaði hans. Greiðslumiðlun og Kreditkort eru keppinautar á markaðnum fyrir færsluhirðingu. Færsluhirðing felst í þeirri þjónustu við söluaðila (t.d. verslanir) að veita þeim heimild til að taka við greiðslum með greiðslukortum, taka við færslum þeirra og greiða þeim út þegar korthafar greiða reikninga sína. Greiðslumiðlun var í markaðsráðandi stöðu á þessum markaði. Fjölgreiðslumiðlun er fyrirtæki í sameiginlegri eigu viðskiptabankanna, sparisjóðanna, Greiðslumiðlunar, Kreditkorts og Seðlabanka Íslands. Meðal verkefna Fjölgreiðslumiðlunar er að reka rafræn kerfi (RÁS-kerfi) fyrir heimildarleit, færslusöfnun og greiðslumiðlun vegna viðskipta með greiðslukort.  Aðgangur að þessu kerfi er mikilvægur fyrir þá sem starfa á greiðslukortamarkaðnum.

Greiðslumiðlun hefur viðurkennt að hafa brotið gegn 10. og 11. gr. samkeppnislaga og 53. og. 54. gr. EES-samningsins. Kreditkort hefur viðurkennt að hafa brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Fjölgreiðslumiðlun hefur viðurkennt að hafa brotið gegn 10. og 12. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins.  Brotin fólust aðallega í eftirfarandi aðgerðum:

1- Aðgerðir Greiðslumiðlunar gegn PBS/Kortaþjónustunni (misnotkun á markaðsráðandi stöðu)

Allt fram til ársins 2002 höfðu Greiðslumiðlun og Kreditkort annast nánast alla færsluhirðingu vegna notkunar greiðslukorta hjá íslenskum söluaðilum vöru og þjónustu. í nóvember það ár hóf danskt fyrirtæki, PBS International, færsluhirðingu í samkeppni við þessi tvö fyrirtæki. PBS International hefur samstarfsaðila á Íslandi sem er Kortaþjónustan ehf. og annast það fyrirtæki samningagerð við söluaðila og miðlun færslna. Hér á eftir verður vísað til þessara fyrirtækja í einu lagi sem PBS/Kortaþjónustan.

Fram til þess að PBS/Kortaþjónustan hóf starfsemi var framkvæmdin sú að Greiðslumiðlun og Kreditkort gerðu að jafnaði upp við söluaðila mánaðarlega. PBS/Kortaþjónustan bauð hins vegar upp á nýbreytni í samkeppni við þessi fyrirtæki. Fólst það í því að bjóða söluaðilum örari útborgun vegna kreditkortaviðskipta sem styst var tveimur virkum dögum eftir viðskiptin. Hagræði getur verið fólgið í því fyrir söluaðila að fá umrætt fé sem fyrst í hendur. Hafa ber í huga að kreditkortanotkun er óvíða meiri heldur en hér á landi. Greiðslumiðlun, Kreditkort og Fjölgreiðslumiðlun höfðu með sér ólögmætt samráð um afmarkaðar aðgerðir í því skyni að vinna gegn innkomu PBS/Kortaþjónustunnar inn á markaðinn, sbr. kafli 2.

Gögn málsins sýna að stjórnendur Greiðslumiðlunar voru neikvæðir í garð þessarar samkeppni frá PBS/Kortaþjónustunni. Innan Greiðslumiðlunar voru tekin saman minnisblöð og ritaðir tölvupóstar þar sem fram kemur ásetningur um að koma PBS/Kortaþjónustunni út af íslenskum færsluhirðingarmarkaði og voru aðgerðir ákveðnar í því skyni. Var tilgangurinn skv. gögnum Greiðslumiðlunar að koma í veg fyrir að þessi samkeppni myndi minnka arðsemi Greiðslumiðlunar af þessum viðskiptum og það að koma PBS/Kortaþjónustunni út af markaðnum yrði viðvörun til annarra sem hygðust hefja samkeppni á hinum íslenska markaði. Aðgerðir sem Greiðslumiðlun greip til með það að markmiði að hrekja PBS/Kortaþjónustuna út af markaðnum voru margvíslegar og þessi misnotkun á markaðsráðandi stöðu átti sér stað á árunum 2002-2006. Skal þetta útskýrt nánar.

1.1  Vegna stöðu sinnar á markaði bjó Greiðslumiðlun yfir upplýsingum um viðskipti PBS/Kortaþjónustunnar. M.a. á grundvelli þessara upplýsinga sneri Greiðslumiðlun sér til viðskiptavina PBS/Kortaþjónustunnar og bauð þeim sértæk kjör og tilboð í því skyni að ná þeim úr viðskiptum við PBS/Kortaþjónustuna. Var hér um að ræða ólögmætar sértækar verðlækkanir og örari útborganir sem stóð söluaðilum í viðskiptum hjá Greiðslumiðlun almennt ekki til boða. I sumum tilvikum var einnig boðin lækkun á posaleigu eða þeir jafnvel fríir sem felur í sér ólögmæta samtvinnun.

1.2  Greiðslumiðlun beitti tæknilegum hindrunum, svo sem áhættustýringu[I], til þess að gera söluaðilum í viðskiptum við PBS/Kortaþjónustuna erfiðara um vik við framkvæmd kreditkortaviðskipta. Greiðslumiðlun beitti þessari áhættustýringu með öðrum hætti í sínu kerfi þegar leitað var heimildar vegna viðskipta hjá íslenskum söluaðilum hjá PBS/Kortaþjónustunni en hjá söluaðilum sem voru hjá Greiðslumiðlun með færsluhirðingu. Þessar aðgerðir hjá Greiðslumiðlun voru ekki í samræmi við almennt hlutverk áhættustýringar þar sem þjóðerni söluaðila hefur þýðingu. Þess í stað var mismunandi áhættustýringu beitt eftir því hvort íslenskir söluaðilar voru í viðskiptum við keppinautinn í færsluhirðingu eða ekki. Þetta leiddi til þess að söluaðilum hjá PBS/Kortþjónustunni var gert erfiðara um vik að framkvæma sölu en söluaðilum hjá Greiðslumiðlun með tilheyrandi töfum og óþægindum fyrir söluaðila og korthafa. Annað dæmi um tæknihindrun er að á fyrstu mánuðum sem PBS/Kortaþjónustan sinnti færsluhirðingu á Íslandi breytti Greiðslumiðlun upphæðum viðskipta sem voru í íslenskum krónum í Bandaríkjadali og síðan aftur í krónur við færslu inn á viðskiptayfirlit korthafa með tilheyrandi gengisáhættu. Þegar korthafar kvörtuðu yfir þessu við Greiðslumiðlun reyndi félagið að beina óánægju þeirra gegn söluaðilum sem voru í viðskiptum við PBS/Kortaþjónustuna.

1.3  Greiðslumiðlun og PBS eru aðilar að VISA International. Tilheyra félögin VISA Europe, þ.e. Evrópusvæði Visa sem hefur aðalstöðvar í Lundúnum. Gögn málsins sýna að Greiðslumiðlun beitti VISA Europe þrýstingi og setti sérstakar reglur um færsluhirðingu sem voru til þess fallnar að hindra starfsemi PBS/Kortaþjónustunnar hér á landi.

2. Ólögmætt samráð

Greiðslumiðlun og Kreditkort höfðu með sér margvíslegt ólögmætt samráð. Fjölgreiðslumiðlun tók að hluta til þátt í þessu ólögmæta samráði:

2.1  Greiðslumiðlun og Kreditkort höfðu með sér samráð um viðbrögð og aðgerðir sem hófust í nóvember árið 2002 til að vinna gegn innkomu PBS/Kortaþjónustunnar á færsluhirðingarmarkaðinn á Íslandi. Þessi félög höfðu frumkvæði að þessu samráði en Fjölgreiðslumiðlun tók þátt í því með m.a. upplýsingamiðlun um þennan nýja keppinaut.

2.2 Samráð var milli Greiðslumiðlunar og Kreditkorts um að viðhalda gagnkvæmum skilningi um að félögin sæktust ekki eftir umsýsluleyfum undir vörumerkjum hvors annars. í þessu fólst sameiginlegur skilningur um að Greiðslumiðlun keppti ekki við Kreditkort í færsluhirðingu á MasterCard/Maestro kortum og Kreditkort keppti ekki við Greiðslumiðlun í færsluhirðingu á VISA/Electron kortum.

2.3  Greiðslumiðlun hafði samráð við Kreditkort um að það fyrirtæki myndi ekki fara út í posaleigu í samkeppni við Greiðslumiðlun gegn samningi um að Kreditkort fengi þess í stað að kaupa VISA Raðgreiðslusamninga. í þessu fellst að félögin höfðu með sér samráð um markaðsskiptingu sem var til þess fallið að takmarka samkeppni á posaleigumarkaði.

2.4  Kreditkort og Greiðslumiðlun höfðu með sér samráð um hlut útgefanda í þóknun frá söluaðilum vegna notkunar debetkorta.

2.5. Kreditkort og Greiðslumiðlun viðhöfðu samráð um að draga úr samkeppni í tilboðum til viðskiptavina auk samráðs um markaðs- og kynningarstarf. Fólst þetta t.d. í því að hætta að bjóða viðskiptavinum upp á tiltekin tilboð.

2.6  Greiðslumiðlun og Kreditkort höfðu með sér samráð um setningu ýmissa skilmála sem tengjast greiðslukortastarfsemi og sem varða m.a. rekstrarlega þætti hjá söluaðilum og hagsmuni korthafa.

2.7  Kreditkort, Greiðslumiðlun og Fjölgreiðslumiðlun höfðu með sér upplýsingaskipti um viðskiptaleg málefni, eins og t.d. upplýsingar um markaðshlutdeild, verð og verðlagningaráform. Var þessi upplýsingagjöf um t.d. markaðshlutdeild til þess fallin að skapa samkeppnishamlandi gagnsæi á þessum fákeppnismarkaði.

2.8  Greiðslumiðlun og Kreditkort höfðu með sér samráð um ýmis þróunar- og fjárfestingarverkefni tengd greiðslumiðlun og færsluhirðingu. Markmiðið var að verja stöðu félaganna í færslu- og greiðslumiðlun og að takmarka hættu á mögulegri samkeppni í framtíðinni.

2.9 Varðandi ýmis framangreind brot hafa Kreditkort og Greiðslumiðlun lagt á það áherslu að félögunum hafi láðst að sækja um undanþágu frá banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði.

3. Samkeppnishömlur innan Fjölgreiðslumiðlunar

Innan vébanda Fjölgreiðslumiðlunar var starfandi Rekstrarnefnd RÁS-þjónustunnar (hér eftir Rás-nefndin) sem skipuð var þremur aðilum og þremur til vara. Nefndin var skipuð einum frá hvoru kortafélaganna Greiðslumiðlun og Kreditkorti og einum starfsmanni Fjölgreiðslumiðlunar. Rás-nefndinni var ætlað að vera samvinnuvettvangur sem hafði m.a. það verkefni að fjalla um tækni- og öryggismál, hafa umsjón með staðlagerð og eftirlit með vottun á tækjum. Nefndinni var einnig ætlað að fjalla um viðskipti og samninga við söluaðila og að gera tillögur til stjórnar Fjölgreiðslumiðlunar um úrbætur t.d. á skilmálum fyrir kaupmenn í færsluhirðingu. Við skoðun gagna hjá Fjölgreiðslumiðlun og einnig hjá kortafélögunum hefur komið í ljós alvarlegt samráð sem þessi vettvangur leiddi af sér. Samráðið fólst í töku ákvarðana í Rás-nefndinni og í sumum tilvikum einnig í stjórn félagsins um málefni sem aðallega tengjast samkeppni milli Greiðslumiðlunar og Kreditkorts. Það er sameiginlegt öllum þessum atriðum að samráð um þau eru samkeppnishamlandi á markaði fyrir notkun greiðslukorta og hafa þau með þeim hætti mögulega áhrif á valmöguleika og rekstrarumhverfi söluaðila og á hagsmuni korthafa. Skal þetta útskýrt nánar:

3.1  Innan Rás-nefndar átti sér stað samræming á reglum um sameiginlega áhættustýringu og innhringihlutfall þegar greiðslukort eru notuð í viðskiptum.

3.2  Umræður áttu sér stað um breytileg kortatímabil innan ársins hjá söluaðilum fyrir viðskipti þar sem kreditkort eru notuð. Leiddi þetta til sameiginlegrar afstöðu gagnvart söluaðilum og varðaði þetta einnig hagsmuni korthafa. Samráð var um önnur atriði eins og t.d. um samræmda framkvæmd Greiðslumiðlunar og Kreditkorts gagnvart söluaðilum sem heimild hafa til viðtöku greiðslukorta í viðskiptum án undirskriftar korthafa.

3.3   Samráð var innan m.a. Rás-nefndar um að það væri á forræði félagsins að stýra því hvort og þá hvaða viðbótarlausnir væru hýstar í posum og öðrum búnaði sem tengist rafræna greiðslumiðlunarkerfinu. Var þetta til þess fallið að raska samkeppni á þessu sviði.

3.4 Samráð var um framkvæmd við mat á áhættu og ákvörðun um viðmiðunarupphæðir þegar GSM símar eru notaðir til greiðslumiðlunar. Leiddi þetta til samræmingar milli Greiðslumiðlunar og Kreditkorts.

3.5  Umræður áttu sér stað um staðal íslensku kortafélaganna sem tengist greiðslukortaviðskiptum og um sameiginlega stefnumótun um íslenska útfærslu á færsluhirðingu. Samskipti áttu sér stað um sameiginlega aðferð til vaxtaútreiknings hjá korthöfum annars vegar og söluaðilum hins vegar þegar debetkort eru notuð í viðskiptum. Fjölgreiðslumiðlun hefur lagt á það áherslu að eðli greiðslukerfa og greiðslumiðlunar kalli á ákveðna samvinnu fjármálastofnana og að svigrúm fyrir sjálfstæða hegðun sé að þessu leyti afar takmarkað. Víðtækt samstarf var innan Fjölgreiðslumiðlunar um aðgerðir sem varða ýmis þróunar- og fjárfestingarverkefni og einnig var Fjölgreiðslumiðlun vettvangur umræðna og sameiginlegrar afstöðu bankanna og kortafélaganna til eignarhalds þeirra í öðrum félögum sem tengjast þessum markaði með það í huga að verja stöðu eigendanna í greiðslumiðlun á Íslandi.

3.6 Varðandi ýmis framangreind brot hefur Fjölgreiðslumiðlun lagt á það áherslu að félaginu hafi láðst að sækja um undanþágu frá banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði.

4. Viðurlög og fyrirmæli

Vegna framangreindra brota hefur Greiðslumiðlun fallist á að greiða 385 mkr. í stjórnvaldssekt, Kreditkort 185 mkr. og Fjölgreiðslumiðlun 165 mkr. Við mat á fjárhæð sekta er litið til þess að um er að ræða alvarleg brot á samkeppnislögum sem voru til þess fallin að valda verulegri röskun á samkeppni og náðu brotin yfir langt tímabil. Horft er til þess að Greiðslumiðlun hefur haft mjög sterka stöðu á markaðnum. Hvað Fjölgreiðslumiðlun áhrærir er horft til þess að flókin álitaefni geta komið upp í starfrækslu greiðslukerfa. Er því ekki unnt að útiloka að hluti brota Fjölgreiðslumiðlunar hafi verið framinn af gáleysi.

Við mat á sektarfjárhæð er einnig horft til þess að umrædd fyrirtæki höfðu frumkvæði að sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið og hafa undanbragðalaust játað brot sín á samkeppnislögum. Einnig hafa fyrirtækin fallist á að hlíta fyrirmælum sem til þess eru fallin að efla samkeppni. Með þessum aðgerðum sínum hafa fyrirtækin þrjú auðveldað og stytt mjög rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda sem hefur jákvæð samkeppnisleg áhrif á hinum skilgreinda markaði. Er mjög horft til þessa samstarfsvilja fyrirtækjanna við mat á sektum.

Greiðslumiðlun er og sérstaklega umbunað fyrir að stíga fyrst fram og játa þátttöku sína í ólögmætu samráði. Er almennt séð mikilvægt að fyrirtæki sem rjúfa einingu eða samheldni í samráði eða hafa frumkvæði að því að játa slík brot eða upplýsa um þau njóti sérstakrar lækkunar á sektum.

Fyrirmælum þeim sem Greiðslumiðlun, Kreditkort og Fjölgreiðslumiðlun hafa fallist á að hlíta er ætlað að efla virka samkeppni og koma í veg fyrir að samskonar brot verði framin á ný. Er t.d. að finna fyrirmæli um eftirfarandi:

  • Kreditkort og Greiðslumiðlun hætti allri viðskiptalegri samvinnu við keppinauta félagsins nema félögin fái undanþágu þess efnis,
  • Kreditkort, Greiðslumiðlun og Fjölgreiðslumiðlun dragi sig út úr öllum stjórnum, nefndum eða ákvörðunarhópum sem geta verið vettvangur fyrir ólögmætt samráð.
  • Lagt er bann við því að Kreditkort, Greiðslumiðlun og Fjölgreiðslumiðlun miðli eða taki við upplýsingum sem raskað geta samkeppni.
  • Samkeppnisleg vandamál hafa stafað af tengslum milli Greiðslumiðlunar og Kreditkorts. Þannig hafa sömu fyrirtæki átt fulltrúa í stjórn bæði Greiðslumiðlunar og Kreditkorts. Skapar þetta samráðsgrundvöll milli greiðslukortafélaganna og geta af þessu leitt mjög alvarlegar samkeppnishindranir. Eru því sett fyrirmæli til þess að rjúfa þessi stjórnunartengsl. Jafnframt hefur verið litið til þess að í stjórnum Fjölgreiðslumiðlunar, Greiðslumiðlunar, Kreditkorts hafa setið fulltrúar fyrirtækja sem eru í samkeppni hvert við annað. Eru sett fram fyrirmæli til þess að draga úr hættu á samkeppnishömlum vegna þessa.
  • Innan Fjölgreiðslumiðlunar hefur farið fram mikið samstarf milli þeirra aðila sem eru eigendur þess félags. Samstarfið hefur lotið að tækni- og öryggisatriðum sem tengjast m.a. rafrænni greiðslumiðlun. Samstarf hefur einnig verið um viðskiptaleg málefni, aðallega sem tengjast starfsemi greiðslukortafyrirtækjanna. Hafa af þessari samvinnu leitt alvarleg brot á samkeppnislögum. Sökum þessa og í ljósi eðlis Fjölgreiðslumiðlunar sem samtaka fyrirtækja þykir rétt að fram fari heildstæð skoðun á starfsemi þess félags. Mun Fjölgreiðslumiðlun því, fyrir 1. maí nk., senda Samkeppniseftirlitinu erindi þar sem óskað verður eftir undanþágu skv. 15. gr. samkeppnislaga vegna þess samstarfs sem aðildarfyrirtæki Fjölgreiðslumiðlunar telja nauðsynlegt (vegna t.d. öryggissjónarmiða) að fram fari á vegum félagsins. Mun Samkeppniseftirlitið leggja á þetta mat í nýju máli sem hefst þegar umrætt erindi berst.

5. Niðurlag

Samkeppniseftirlitið telur að mál þetta sé mjög þýðingarmikið. Full rök standa til þess að lyktir þess og framangreindar breytingar muni hafa í för með sér afar jákvæð áhrif á fjármálamarkaði. Ábyrg afstaða Greiðslumiðlunar, Kreditkorts og Fjölgreiðslumiðlunar í málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins er til þess fallin að skapa mun heilbrigðara samkeppnisumhverfi og stuðla að aukinni samkeppni á þessum mikilvæga markaði.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í þessu máli er að finna á heimasíðu þess.


[I] Áhættustýring er almennt notuð í tvennum tilgangi. Annars vegar til þess að fylgjast með því að úttektir korthafa fari ekki umfram þau heimildarmörk fyrir hvert kortatímabil sem kortaútgefendur hafa skilgreint fyrir einstaka korthafa. Hins vegar er áhættustýringu beitt til þess að lágmarka tap útgefenda vegna misnotkunar glataðra, stolinna eða falsaðra korta. í því tilviki er beitt strangari áhættustýringu þegar kort er notað hjá erlendum söluaðila en innlendum.

Ákvörðun nr. 4/2008.