13.3.2008

Fréttatilkynning - Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir að Eimskip hafi framið alvarleg brot á samkeppnislögum

Mynd: Merki EimskipaÍ ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 70/2007 frá desember 17. desember 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að Eimskip hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á sjóflutningamarkaði og brotið þannig gegn bannákvæðum samkeppnislaga. Þetta gerði Eimskip annars vegar með aðgerðum sem beindust gegn Samskipum (markaðsatlaga) og hins vegar með gerð fjölmargra ólögmætra einkakaupasamninga við viðskiptavini sína. Með einkakaupum í þessu samhengi er átt við að samninga þar sem Eimskip skuldbatt viðskiptavini sína til þess að kaupa flutningaþjónustu einungis af félaginu. Var Eimskip sektað um 310 milljónir kr.

Eimskip skaut skaut þessu máli til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp sinn úrskurð í dag. Fyrir áfrýjunarnefnd hélt Eimskip því fram að málinu hafi ranglega verið beint að félaginu, það væri ekki markaðsráðandi og aðgerðir þess hefðu falið í sér eðlilega samkeppni en ekki brot á samkeppnislögum.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála kemst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að Samkeppniseftirlitið hafi réttilega beint málinu að Eimskip. Jafnframt var staðfest að félagið væri í markaðsráðandi stöðu. Ennfremur staðfesti áfrýjunarnefnd að Eimskip hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með aðgerðum sem miðuðu að því að veikja Samskip verulega og varanlega og með gerð ólögmætra einkakaupasamninga. Telur áfrýjunarnefnd að um hafi verið að ræða alvarleg brot á samkeppnislögum. Taldi áfrýjunarnefnd hæfilegt að leggja 230 milljón kr. sekt á Eimskip vegna þessara brota. Er þetta hæsta sekt sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur lagt á vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

Úrskurður nr. 3/2008.