18.11.2013

Héraðsdómur fellir úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála úr gildi

GosglasÍ mars 2011 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Vífilfell hf. hefði brotið gegn bannákvæðum samkeppnislaga með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína á gosdrykkjamarkaði. Um var að ræða tæplega 900 samninga Vífilfells við viðskiptavini (veitingahús og verslanir) er innihéldu ákvæði um einkakaup, skilyrta afslætti og önnur tryggðarákvæði. Taldi Samkeppniseftirlitið að fyrirtækið væri með þessum hætti að útiloka samkeppni. Vífilfell skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði sínum frá október 2011 staðfesti áfrýjunarnefnd þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Vífilfell hefði framið brot á samkeppnislögum en lækkaði álagaða sekt á fyrirtækið. Vífilfell skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla.

Við mat á því hvort fyrirtæki telst vera markaðsráðandi skv. samkeppnislögum ber að skilgreina viðkomandi markað. Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd töldu markað málsins taka til sölu á gosdrykkjum. Er það í samræmi við eldri mál hér á landi og fordæmi í nágrannalöndum. Vífilfell heldur því fram að markaðurinn sé víðtækari og taki til allra óáfengra drykkja eins og t.d. mjólkurdrykkir, kaffi, ávaxtasafa, orkudrykkja o.fl. Héraðsdómur féllst ekki á það með Vífilfelli að markaðurinn væri að þessu leyti svo víður. Hins vegar taldi dómurinn að ekki hefði verið rannsakað nægjanlega vel hvort kolsýrðir vatnsdrykkir væru á sama markaði og gosdrykkir. Því lægi að mati dómsins ekki ljóst fyrir að Vífilfell væri markaðsráðandi. Sökum þessa felldi dómurinn úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála úr gildi.

Samkeppniseftirlitið mun yfirfara forsendur dóms Héraðsdóms Reykjavíkur og taka afstöðu til þess hvort honum verði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.