10.2.2014

Samkeppniseftirlitið samþykkir kaup Framtakssjóðsins SF IV slhf. á Skeljungi hf., með skilyrðum

Merki SkeljungsSamkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun nr. 2/2014, Kaup SF IV slhf. á Skeljungi hf. Í ákvörðuninni er fjallað um kaup framtakssjóðsins SF IV á olíufélaginu Skeljungi. SF IV er með rekstrarsamning við Stefni hf. sjóðastýringarfélag sem er dótturfélag Arion banka. Arion banki er á meðal stærstu hluthafa SF IV, en einnig eiga stórir lífeyrissjóðir töluverðan eignarhlut í félaginu. Í kaupunum fólust jafnframt kaup á færeyska olíufélaginu P/f Magn og komu þau til skoðunar þarlendra samkeppnisyfirvalda. Málinu lauk með sátt Samkeppniseftirlitsins við samrunaaðila þar sem þeir féllust á að samrunanum yrðu sett ákveðin skilyrði sem m.a. er ætlað að tryggja sjálfstæði Skeljungs sem keppinautar á eldsneytismarkaðnum.

Undanfarið og jafnframt í tengslum við rannsókn þessa máls hefur Samkeppniseftirlitið kannað með almennum hætti hvernig eignarhald á atvinnufyrirtækjum hefur þróast í kjölfar bankahrunsins. Í þessu samhengi má benda á skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2013, Er týndi áratugurinn framundan? Öflug samkeppni læknar stöðnun. Þessi athugun hefur leitt í ljós að aðkoma lífeyrissjóða að eignarhaldi fyrirtækja hefur vaxið hröðum skrefum á meðan eignarhald banka og skilanefnda á rekstrarfélögum hefur dregist saman. Minnkandi eignarhlutur banka í samkeppnisfyrirtækjum er jákvæður en vaxandi eignarhlutur lífeyrissjóða, m.a. í gegnum framtakssjóði, kallar á umræðu um aðkomu þeirra að slíku eignarhaldi og með hvaða hætti nauðsynlegt er að standa vörð um virka samkeppni við þær aðstæður. Að mati Samkeppniseftirlitsins er hætta á því að óskýrt eignarhald og takmarkað eigendaaðhald í atvinnufyrirtækjum geti leitt til röskunar á samkeppni. Samkeppniseftirlitið telur ljóst í þessu samhengi að umsvif lífeyrissjóða í fjárfestingum í atvinnufyrirtækjum komi til með að hafa afgerandi áhrif á þróun samkeppnismarkaða á næstu árum.

Var það mat Samkeppniseftirlitsins að nauðsynlegt væri að grípa til íhlutunar í þessu máli og setja samrunanum skilyrði vegna þeirra samkeppnislegu vandamála sem annars kynnu að leiða af eignarhaldi SF IV á Skeljungi. Þau vandamál helgast einkum af eignarhlut Arion banka og aðkomu bankans og dótturfélags hans, Stefnis, að viðskiptunum og rekstri SF IV og Skeljungs. Jafnframt leiðir ákveðinn vandi af styrk eigenda SF IV sem fjárfesta á íslenska markaðnum og mögulegum óæskilegum eignatengslum t.d. á milli Skeljungs og keppinauta fyrirtækisins.