28.2.2014

Samkeppniseftirlitið hefur til athugunar hvernig brugðist verði við úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála um úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli

Mynd af flugvél WOW air ehf. - Mynd WOW.isMeð úrskurði sínum í dag hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismála fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 25/2013, um úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Í ákvörðuninni brást Samkeppniseftirlitið við kvörtun frá Wow Air og beindi þeim fyrirmælum til Isavia, sem í umboði íslenska ríkisins ber ábyrgð á rekstri Keflavíkurflugvallar, að tryggja Wow Air aðgang að samkeppnislega mikilvægum afgreiðslutímum fyrir flugvélar á flugvellinum. Komist var að þeirri niðurstöðu að núverandi fyrirkomulag úthlutunar á afgreiðslutímum hafi leitt til þess að Icelandair, langstærsti keppinauturinn, hefði forgang að nær öllum mikilvægustu afgreiðslutímum á flugvellinum. Slíkt væri til þess fallið að raska með alvarlegum hætti samkeppni í flugi til og frá landinu.

Samkeppniseftirlitið beindi fyrirmælum sínum til Isavia. Í úrskurði áfrýjunarnefndar er byggt á því að danskur aðili, Frank Holton, sem forveri Isavia réði til þess að vera samræmingarstjóri við úthlutun flugafgreiðslutíma, fari með sjálfstætt stjórnsýsluvald samkvæmt íslenskum lögum og að Isavia bresti því heimild til hvers kyns afskipta af úthlutun hans á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Samningsákvæði um að Isavia geti hvernær sem er sagt samræmingarstjóranum upp og að samræmingarstjórinn geti ekki undir nokkrum kringumstæðum borið ábyrgð á kvörtunum vegna starfa sinna samkvæmt samningnum, breyta engu hér um að mati áfrýjunarnefndar.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er ekki tekin efnisleg afstaða til samkeppnisaðstæðna á Keflavíkurflugvelli, sem lágu til grundvallar upphaflegri ákvörðun. Ekki er því raskað þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að núverandi fyrirkomulag úthlutunar á afgreiðslutímum hafi leitt til þess að Icelandair, langstærsti keppinauturinn, hafi forgang að nær öllum mikilvægustu afgreiðslutímum á flugvellinum. Úthlutunarfyrirkomulagið hafi því takmarkað mjög möguleika annarra flugfélaga til þess að keppa við Icelandair og þannig skaðað samkeppni á því mikilvæga sviði sem farþegaflug til og frá landinu er.

Samkeppniseftirlitið hefur nú til athugunar hvernig brugðist verði við framangreindum úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í því efni kemur m.a. til álita að hefja nýtt mál gagnvart hinum danska samræmingarstjóra, í ljósi þess að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að hann fari með sjálfstætt stjórnsýsluvald á þessu sviði, samkvæmt íslenskum lögum. Einnig kemur til álita að bera úrskurðinn undir dómstóla.

Áður en Samkeppniseftirlitið tekur ákvörðun um viðbrögð við úrskurðinum mun eftirlitið leita sjónarmiða málsaðila, þ.e. Isavia, Wow Air og Icelandair. Ennfremur mun eftirlitið leita sjónarmiða innanríkisráðuneytisins. Minnt er á í því sambandi að flugmálayfirvöld hafa ekki farið að tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2008, þess efnis að breyta úthlutunarreglum á flugvellinum. Hefði það verið gert, hefði verið unnt að bæta samkeppnisaðstæður í flugi til og frá landinu og komast hjá framangreindum málarekstri.