8.5.2014

Staða rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á hugsanlegum brotum Byko og Húsasmiðjunnar

Stafli af trjádrumbumÍ fjölmiðlum hefur verið greint frá því að embætti sérstaks saksóknara hafi gefið út ákærur vegna rannsóknar á ætluðum brotum starfsmanna Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins á samkeppnislögum. Brot á banni samkeppnislaga við samráði fyrirtækja getur annars vegar varðað starfsmenn og stjórnarmenn refsingu og hins vegar fyrirtæki stjórnvaldsviðurlögum. Lögregla rannsakar þátt einstaklinga og Samkeppniseftirlitið aðgerðir fyrirtækja.

 

Vegna framangreindrar umfjöllunar og fyrirspurna vill Samkeppniseftirlitið taka fram eftirfarandi:

 

Samhliða rannsókn lögreglu á ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna hefur Samkeppniseftirlitið haft til rannsóknar hugsanleg brot hlutaðeigandi fyrirtækja á banni við ólögmætu samráði, en slík brot varða fyrirtæki m.a. stjórnvaldssektum. Samkeppniseftirlitið hefur nú sent andmælaskjal til þeirra sem eru í fyrirsvari í málinu gagnvart Byko og Húsasmiðjunni. Andmælaskjal hefur að geyma lýsingu á atvikum málsins og frumniðurstöðu um ætluð brot. Með andmælaskjalinu er hlutaðeigandi fyrirtækjum gefið ítrasta tækifæri til að kynna sér málið og nýta sér andmælarétt sinn. 

 

Í framhaldinu mun Samkeppniseftirlitið vinna úr sjónarmiðum aðila og taka ákvörðun í málinu. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvenær ákvörðun liggur fyrir, en það ræðst m.a. af viðbrögðum umræddra fyrirtækja.

Upphaf málsins má rekja til húsleita sem efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, í samvinnu við Samkeppniseftirlitið, framkvæmdi í húsnæði Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins, þann 8. mars 2011. Áður hafði Samkeppniseftirlitið kært málið til efnahagsbrotadeildarinnar.