26.9.2008

Samkeppniseftirlitið heimilar samruna Kaupþings og SPRON og kaup Kaupþings á meirihluta stofnfjár í Sparisjóði Mýrasýslu

Samruni Kaupþings og SPRON samþykktur
Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar samruna Kaupþings banka hf. (Kaupþing) og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON). Gögn frá samrunaaðilum, sem nauðsynleg voru til þess að unnt væri að leggja lokamat á samrunann, bárust 25. september 2008. Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun vegna samrunans. Ákvörðunin, nr. 50/2008, er aðgengileg á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Samruni Kaupþings hefur aðallega áhrif á markaðinn fyrir viðskiptabankaþjónustu fyrir einstaklinga og smærri fyrirtæki. Þekkt er bæði hér á landi og erlendis að það er helst á þessu sviði bankaþjónustu sem samrunar geta skapað samkeppnisleg vandamál. Samrunar milli tveggja eða fleiri fjárfestingabanka eða samrunar milli viðskiptabanka og fjárfestingabanka raska yfirleitt ekki samkeppni vegna alþjóðlegrar samkeppni eða lítillar skörunar á starfsemi.

Í ákvörðuninni kemur fram það mat Samkeppniseftirlitsins að viðskiptabankarnir; Landsbanki Íslands, Kaupþing og Glitnir banki séu í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu á markaðnum fyrir viðskiptabankaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækjaþjónustu við smærri fyrirtæki. Sameiginleg markaðsráðandi staða gerir viðkomandi fyrirtækjum kleift að samhæfa hegðun sína á markaðnum án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda. Eru slík fyrirtæki í stöðu til þess að takmarka samkeppni og hækka verð eða draga úr þjónustu.

Samanlögð markaðshlutdeild þessara viðskiptabanka er á bilinu 65-85% á markaðnum fyrir viðskiptabankaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækjaþjónustu við smærri fyrirtæki. Hlutdeild SPRON á sama markaði er tæp 10%. SPRON og aðrir sparisjóðir hafa að nokkru leyti skorið sig úr í háttsemi sinni á markaði og þannig stuðlað að meiri samkeppni en verið hefði ef einungis hinir þrír stóru viðskiptabankar hefðu starfað á markaðnum. Það að SPRON hverfur af markaðnum sem sjálfstæður keppinautur styrkir sameiginlega markaðsráðandi stöðu viðskiptabankanna þriggja og er til þess fallið að valda neytendum og fyrirtækjum samkeppnislegu tjóni.

Undir rekstri málsins var því haldið fram að staða SPRON sé erfið og að sökum þess bæri að heimila samrunann. Viðurkennt er í samkeppnisrétti að slík staða fyrirtækis geti leitt til þess að heimila beri samruna. Ástæðan er sú að í slíkum tilvikum stafa samkeppnishömlurnar ekki af samrunanum sem slíkum heldur af erfiðri stöðu hins yfirtekna fyrirtækis.

Samkeppniseftirlitið hefur metið fjárhagsstöðu SPRON, möguleikann á að einhver annar kaupi sparisjóðinn og samkeppnisleg áhrif þessa alls. Að mati Samkeppniseftirlitsins er ljóst að brotthvarf SPRON af markaðnum sem sjálfstæður keppinautur skapar umtalsverðar samkeppnishömlur. Með vísan til framkominna gagna og upplýsinga er það mat Samkeppniseftirlitsins að sú breyting á markaðnum sem felst í samruna Kaupþings og SPRON, sé óhjákvæmileg miðað við þær aðstæður sem SPRON er í, þar sem félagið myndi ella hverfa af markaðnum sem sjálfstæður keppinautur. Því er engin önnur niðurstaða tæk en að heimila samrunann.


Samkeppniseftirlitið samþykkir kaup Kaupþings á 70% stofnfjárhlut í Sparisjóði Mýrasýslu
Samkeppniseftirlitinu barst þann 3. september 2008 tilkynning vegna samruna Kaupþings og Sparisjóðs Mýrasýslu (hér eftir SPM). Gögn frá samrunaaðilum, sem nauðsynleg voru til þess að unnt væri að leggja lokamat á samrunann, bárust 16. september 2008. Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun í þessu samrunamáli, ákvörðun nr. 51/2008.

Samkeppniseftirlitið telur að við kaup Kaupþings á stærstum hluta stofnfjár SPM sé mögulegt að Kaupþing komist í markaðsráðandi stöðu á markaðnum fyrir viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og smærri fyrirtæki í Borgarnesi og nærsveitum. Eftir samrunann verður ekki á þessu landsvæði annar banki sem sem veitir heildstæða viðskiptabankaþjónustu og munu neytendur í Borgarnesi því  ekki hafa annan valkost í sinni heimabyggð.

Í þessu máli er því haldið fram að staða SPM sé erfið og að sökum þess bæri að heimila samrunann.

Samkeppniseftirlitið hefur metið fjárhagsstöðu SPM, möguleikann á að einhver annar kaupi sparisjóðinn og samkeppnisleg áhrif þessa alls.

Samkeppniseftirlitið telur að brotthvarf SPM af markaðnum sem sjálfstæður keppinautur sé til þess fallið að hamla samkeppni. Þrátt fyrir þetta er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að erfið staða SPM leiði til þess að engin önnur niðurstaða sé tæk í málinu en að heimila samrunann.