18.2.2015

Samkeppniseftirlitsins heimilar Fjarskiptum hf. (Vodafone) og Nova ehf. að hafa með sér samstarf um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu gegn tilteknum skilyrðum

Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað Vodafone og Nova að hafa með sér tiltekið samstarf um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu. Forsenda samstarfsins er að aðilar hafa fallist á að hlíta skilyrðum sem vinna eiga gegn því að samstarf félaganna um rekstur dreifikerfisins raski samkeppni á mörkuðum fyrir farsímaþjónustu á bæði heildsölustigi og smásölustigi.

Þá er skilyrðunum einnig ætlað að skapa fleiri valkosti og þar með aukna möguleika fyrir núverandi og nýja þjónustuaðila á markaði fyrir farsímaþjónustu á smásölustigi og stuðla þannig að frekari samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Einnig er skapað tækifæri til betri nýtingar á fjárfestingum í undirliggjandi kerfum farsímaþjónustu.

Vodafone og Nova óskuðu eftir því að Samkeppniseftirlitið veitti þeim undanþágu fyrir stofnun sameiginlegs félags í jafnri eigu þeirra beggja um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu. Samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga er Samkeppniseftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá banni 10. gr. samkeppnislaga við samráði fyrirtækja, enda sé slíkt samstarf m.a. til þess fallið að stuðla að bættri nýtingu fjármuna og komi neytendum til góða.

Að undangenginni rannsókn taldi Samkeppniseftirlitið forsendur til að heimila samstarfið að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Vodafone og Nova hafa nú gert sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem fyrirtækin skuldbinda sig til að fara að þeim skilyrðum.

Sáttin felur í sér eftirfarandi meginatriði:

  •  Við heildsölu Fjarskipta og Nova á markaði m.a. fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímakerfum (m.a. fyrir sýndarnetsaðila og endursöluaðila), skulu félögin gæta jafnræðis, hlutlægni og gagnsæis gagnvart þeim fjarskiptafyrirtækjum sem óska eftir slíkum aðgangi.
  •  Fyrirmæli um tiltekið óhæði þeirra sem sitja í stjórn rekstrarfélagsins, þar sem girt er fyrir að stjórnendur samstarfsaðila (Vodafone og Nova) geti setið saman í stjórninni og koma í veg fyrir að samstarfið geti orðið uppspretta frekara samstarfs sem skaðaði samkeppni. 
  • Fyrirmæli um óhæði stjórnenda og lykilstarfsmanna rekstrarfélagsins. 
  • Fyrirmæli um tilhögun tæknilegs samstarfs, m.a. skipan og umgjörð tímabundins tæknihóps við innleiðingu starfseminnar.
  • Ákvæði um eftirfylgni vegna ákvæða sáttarinnar, kynningu o.fl.

Framangreind skilyrði eru byggð á mati á samkeppnisaðstæðum á viðkomandi mörkuðum. Var leitað sjónarmiða hjá fyrirtækjum og stjórnvöldum á fjarskiptamörkuðum. Jafnframt var höfð hliðsjón af sambærilegum erlendum úrlausnum og þróun á fjarskiptamarkaði, einkum tengt samnýtingu innviðakerfa í fjarskiptaþjónustu.

Samkeppniseftirlitið mun á næstunni birta á heimasíðu sinni ákvörðun um undanþáguna með rökstuðningi og nánari skýringum á skilyrðunum sem henni eru sett.