15.4.2015

Samkeppniseftirlitið hefur endurskoðað ákvörðun samkeppnisráðs nr. 10/2005 vegna Símans hf. og Skjásins ehf. þar sem samruna félaganna voru sett tiltekin skilyrði

Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar ósk Símans hf. og Skjásins ehf. um niðurfellingu á ákvörðun samkeppnisráðs nr. 10/2005, Samruni Landssíma Íslands hf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. Í kjölfar viðræðna við aðila hefur Samkeppniseftirlitið fallist á að breyta gildandi skilyrðum þannig að fellt er niður bann við sameiningu félaganna. Síminn og Skjárinn hafa í þessu samhengi fallist á að hlíta tilteknum bindandi skilyrðum í starfsemi sinni. Skilyrðin eru sett í því skyni að draga úr hættunni á mögulegum samkeppnishamlandi áhrifum, verði af sameiningingunni.

Samkvæmt framangreindu hafa Síminn og Skjárinn fallist á að sæta eftirfarandi helstu skilyrðum í starfsemi sinni:

  • Verði Skjárinn rekinn sem sérstök eining innan Símans skal einingin vera með sjálfstæðan efnahags- og rekstrarreikning. Reikningshald vegna Skjásins skal vera sjálfstætt og reikningsskil í samræmi við meginreglur laga um ársreikninga.
  • Með Skjánum er í sáttinni átt við rekstur innlendrar línulegrar sjónvarpsrásar. Í dag eru þetta sjónvarpsstöðvarnar Skjáreinn og Skjársport. Símanum er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á fjarskiptaþjónustu sem fyrirtækið veitir að þjónusta Skjásins fylgi með í kaupunum.
  • Símanum er óheimilt að tvinna saman í sölu fjarskiptaþjónustu fyrirtækisins og þjónustu Skjásins gegn verði eða viðskiptakjörum sem jafna má til slíks skilyrðis. Er þetta áháð því hvort Skjárinn er sérstakt rekstrarfélag eða sérstök eining innan Símans.
  • Þjónustuþættir Skjásins skulu nægjanlega aðgreindir í rekstri frá annarri þjónustu Símans, þ.m.t. í kostnaðarútreikningum, kynningu, sölu, verði og skilmálum.
  • Eftirlitsnefnd um jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja að kerfum, tæknilausnum og þjónustu heildsölu Mílu og Símans, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 6/2013, með síðari breytingum, hefur eftirlit með að skilyrðum sáttarinnar sé fylgt.

Framangreind skilyrði eru byggð á mati á samkeppnisaðstæðum á viðkomandi mörkuðum. Það mat byggir á gögnum og sjónarmiðum hjá fyrirtækjum og stjórnvöldum á fjölmiðla- og fjarskiptamörkuðum. Ennfremur var lagt mat á alþjóðlega þróun á fjölmiðlamarkaði, einkum hugsanlegar breytingar á markaði m.a. fyrir áskriftarsjónvarp.

Samkeppniseftirlitið mun á næstunni birta á heimasíðu sinni ákvörðun þar sem skilyrði fyrir honum verða skýrð nánar.