26.6.2015

Stefnt að útgáfu frummatsskýrslu um eldsneytismarkaðinn eigi síðar en í lok september nk. – Uppfærð tímaáætlun um markaðsrannsókn.

Samkeppniseftirlitið vinnur nú að frágangi svokallaðrar frummatsskýrslu um eldsneytismarkaðinn, en skýrslan er liður í yfirstandandi markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum. Rannsóknin felur í sér athugun á því hvort grípa þurfi til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Byggir rannsóknin á c-lið 1. mgr. 16 gr. samkeppnislaga, sbr. einnig reglur nr. 490/2013  um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins.

Nú er stefnt að birtingu framangreindrar frummatsskýrslu fyrir lok september næstkomandi. Tefst birting skýrslunnar því um allt að þrjá mánuði frá því sem kynnt hafði verið á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins (hér). Stafa þessar tafir einkum af umfangsmeiri gagnaúrvinnslu en fyrri tímaáætlun gerði ráð fyrir.

Frummatsskýrslan mun hafa að geyma drög að niðurstöðu markaðsrannsóknar sbr. 8. gr. fyrrgreindra reglna nr. 490/2013. Í framhaldi verður aðilum máls, og þeim sem þess óska, gefinn hæfilegur frestur til að gera skriflegar athugasemdir við frummatsskýrsluna. Mun Samkeppniseftirlitið skipuleggja opinn fund þar sem hagsmunaaðilum og öðrum gefst færi á að kynna sér skýrsluna og koma á framfæri sínum sjónarmiðum um frummatsskýrsluna.

Að loknu framangreindu ferli mun Samkeppniseftirlitið leggja mat á hvort nauðsynlegt sé að grípa til íhlutunar á markaðnum skv. c-lið 1. mgr.16. gr. samkeppnislaga.

Nánari upplýsingar um markaðsrannsóknina má finna á sérstakri upplýsingasíðu á heimasíðu eftirlitsins.