2.7.2015

Samkeppniseftirlitið hlýtur viðurkenningu Alþjóðabankans fyrir leiðbeiningar- og málsvarastörf sín á krepputímum

Competition Advocasy contestÁ fundi Alþjóðabankans (World Bank) sem haldin var í Washington þann 23. júní sl. var Samkeppniseftirlitinu veitt viðurkenning fyrir framlag sitt til endurreisnar íslenska hagkerfisins eftir efnahagshrunið 2008 og beitingu samkeppnislaga á krepputímum. Viðurkenningin snýr ekki síst að því hvernig Samkeppniseftirlitið hefur beitt leiðsagnar- og málsvarahlutverki sínu í þessu skyni.

Viðurkenningin er liður í að styðja við framkvæmd samkeppnislaga víða um heim. Um er að ræða samstarfverkefni Alþjóðabankans og Alþjóðasamtaka samkeppnisyfirvalda (International Competititon Network), með þátttöku Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Dómnefnd taldi það sérstaklega til fyrirmyndar hvernig Samkeppniseftirlitið brást við eftir hrunið 2008; með því að leita samstarfs við aðila markaðarins, fræðimenn og opinbera aðila, til að stuðla að opnun markaða og koma í veg fyrir eða minnka aðgangshindranir. Taldi dómnefndin þetta mikilvægt þar sem samkeppnislög hafa oft verið lögð til hliðar á krepputímum, sem ávallt hefur dýpkað og lengt kreppuástand. Stofnunin fékk því viðurkenninguna fyrir leiðsagnar- og málsvarastörf sín, sem fólust í áræðni og nýjum aðferðum við að hvetja til þess að samkeppnislögin væru nýtt sem tæki til efnahagslegrar endurreisnar á tímum mikillar kreppu.


Páll Gunnar Pálsson, forstjóri:

Viðurkenningin er Samkeppniseftirlitinu hvatning til að gera enn betur. Á það bæði um leiðsagnarhlutverk eftirlitsins og festu í framkvæmd samkeppnislaga.


Bakgrunnsupplýsingar

Viðurkenningin var veitt á fundi sem haldinn var undir yfirskriftinni „Promoting effective competition policy Shared prosparity and inclusive growth“ (Hvatning til virkar samkeppni, deildrar auðlegðar og hagvaxtar fyrir alla). Þar voru saman komnir virtir fræðimenn á sviði samkeppnismála og aðilar úr einkageiranum og frá hinu opinbera, ásamt forsvarsmönnum samkeppnismála víðs vegar að úr heiminum. Rætt var hvernig best væri að beita samkeppnislögum til að auka velmegun og framleiðni og sér í lagi mikilvægi þess að nýta samkeppnislögin í baráttunni við ójöfnuð og fátækt í heiminum.

Á fjórða tug fyrirlestra voru fluttir á fundinum. Meðal annars var greint frá ýmsum rannsóknum síðustu ára sem staðfesta að samkeppnislög og beiting þeirra séu eitt helsta tæki heimsins í baráttu við fátækt og ójöfnuð. Með því að opna markaði, fækka aðgangshindrunum og minnka regluverk er hægt að auka ráðstöfunartekjur heimila og losa um fátæktargildrur. Skaðsemi samkeppnislagabrota eða hindrun á beitingu þeirra að hálfu opinberra aðila hefur jafnframt leitt til óheilbrigðs hagkerfis sem einkennist af stöðnun og lítilli nýsköpun.

Umræðan á fundinum snérist ekki síst um hið mikilvæga jafnvægi milli beitingar laganna gegn brotum annars vegar og hvernig auka mætti meðvitund almennings, markaðsaðlila og stjórnvalda á mikilvægi laganna hins vegar. Þótt leiðbeining og kynning á samkeppnislögum sé mikilvæg þá sýna líka allar rannsóknir að samkeppnislagabrot eru að kosta hagkerfi heimsins tugi milljarða dollara árlega. Það er því nauðsynlegt að beita lögunum af festu samhliða því að auka meðvitund og þekkingu á lögunum.