14.1.2009

Samkeppniseftirlitið veitir lengri frest til að koma að sjónarmiðum vegna skýrslu

Nordic_icons

Þann 27. nóvember sl. birti Samkeppniseftirlitið skýrslu sína Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi.  Skýrslan var kynnt fjölmörgum aðilum með tölvupósti eða bréfi, sjá frétt á vef Samkeppniseftirlitsins

Vakin er athygli á því að frestur til að koma á framfæri upplýsingum og sjónarmiðum vegna skýrslunnar var gefinn til 15. janúar 2008. Sá frestur hér með framlengdur til 15. febrúar nk. vegna framkominna beiðna þar um.

Til upprifjunar:
Í skýrslunni eru settar fram rúmlega 90 hugmyndir og tillögur sem ætlað er að eyða eða draga úr hindrunum og skapa þannig forsendur fyrir öflugri atvinnurekstri og auknum möguleikum frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja. Beinast tillögurnar bæði að opinberum aðilum og fyrirtækjum. Tillögur þessar byggja á athugun Samkeppniseftirlitsins og upplýsingum úr fyrri athugunum. Hefur athugunin m.a. falist í viðræðum við mörg fyrirtæki, hagsmunasamtök, opinbera aðila og fræðimenn við háskólana.  Vinna við skýrsluna hófst strax eftir hrun viðskiptabankanna.

Í skýrslunni er nánar tiltekið fjallað um eftirfarandi:

  • Reynslu annarra ríkja af þýðingu samkeppni í efnahagskreppum og hvaða lærdóm megi draga af henni. Þessi reynsla og rannsóknir í hagfræði sýna að aðgerðir til þess að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.
  • Greiningu á um 15 samkeppnismörkuðum, þar sem dregnar eru fram helstu hindranir sem ný fyrirtæki eða smærri fyrirtæki standa frammi fyrir þegar þau hefja starfsemi eða hasla sér frekari völl.  Jafnframt er bent á aðgerðir sem geta rutt úr vegi eða dregið úr þessum hindrunum.
  • Leiðir sem opinberir aðilar geta gripið til í því skyni að opna markaði og viðhalda samkeppni.

Sjá skýrslu