8.4.2009

Samkeppniseftirlitið leggur 15 mkr. stjórnvaldssekt á Vélar og verkfæri vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu

Assa_lykillSamkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun sinni í dag komist að þeirri niðurstöðu að Vélar og verkfæri ehf. hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi. Þetta gerði fyrirtækið með því að koma í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð og vinna gegn því að aðrir erlendir framleiðendur næðu fótfestu á íslenskum markaði. Brot fyrirtækisins er alvarlegt og hefur áhrif á sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum beint til neytenda. Höfuðlyklakerfi samanstanda af mismunandi lásum og lyklum fyrir tiltekna fasteign þar sem þó er til staðar einn höfuðlykill sem gengur að öllum lásum.

Vélar og verkfæri selja m.a. höfuðlyklakerfi og efni til að framleiða slík kerfi frá ASSA í Svíþjóð, og er í einokunarstöðu hér á landi í sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi. Þjónustuaðilar hafa gert leyfissamninga við Vélar og verkfæri um leyfi til að handa þeim til að framleiða, selja og þjónusta höfuðlyklakerfi. Ákvæði í leyfissamningunum bönnuðu þjónustuaðilunum að selja höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA og unnu ákvæðin því gegn möguleikum þeirra til að hefja innflutning í samkeppni við Vélar og verkfæri og unnu ennfremur gegn möguleikum annarra erlendra framleiðenda á höfuðlyklakerfum til að ná fótfestu á íslenskum markaði. Fela þessi ákvæði því í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu Véla og verkfæra.

Telur Samkeppniseftirlitið að brot Véla og verkfæra hafi verið alvarleg og myndað verulega aðgangshindrun. Því var að mati Samkeppniseftirlitsins nauðsynlegt að leggja stjórnvaldssekt á fyrirtækið að fjárhæð kr. 15 milljónir.  Við ákvörðun sektarfjárhæðar var m.a. horft til alvarleika brotanna og sektir því umtalsverðar miðað við veltu á viðkomandi markaði.

Brot Véla og verkfæra er dæmi um samkeppnishindrun sem gerir nýjum og smærri fyrirtækjum erfitt fyrir að hefja samkeppni og eða vaxa og dafna við hlið stærri keppinautar. Að mati Samkeppniseftirlitsins er sérstaklega mikilvægt í efnahagsþrengingum, eins og nú eru, að vinna gegn aðgangshindrunum af þessu tagi.  Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi, er fjallað ítarlega um aðgangshindranir og úrræði sem flýtt geta efnahagsbata.

Sjá nánar ákvörðun nr. 14/2009.