13.11.2015

Nafn einstaklings afmáð úr ákvörðun

Persónuvernd hefur með úrskurði, í máli nr. 2015/920, dags. 3. nóvember, komist að þeirri niðurstöðu að Samkeppniseftirlitinu beri að afmá nafn tiltekins einstaklings úr ákvörðun sinni nr. 11/2015, Brot Byko á 10. gr. samkeppnislaga. Viðkomandi einstaklingur hafði beint kvörtun til Persónuverndar vegna nafnbirtingarinnar.

Í úrskurði Persónuverndar er staðfest að birtingin sem kvartað var yfir teljist ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi 9. gr. persónuverndarlaga. Hins vegar segir að enda þótt Samkeppniseftirlitinu kunni að vera heimilt og nauðsynlegt að birta upplýsingar um gögn sem safnað er við rannsókn máls beri engu að síður að meta hvort samkeppnislög heimili birtingu á nafni kvartanda í þessu tilviki, með hliðsjón af ákvæðum persónuverndarlaga og grundvallarsjónarmiða um málefnalega vinnslu persónuupplýsinga. Telur Persónuvernd m.a. að í þessu tilviki hafi nafn kvartanda ekki skipt sköpum fyrir sönnunarfærslu eða niðurstöðu málsins. Vísar stofnunin m.a. til þess að viðkomandi hafi ekki verið starfsmaður þess fyrirtækis sem hin tiltekna ákvörðun beindist gegn. Er þeim fyrirmælum beint til Samkeppniseftirlitsins að afmá nafn kvartanda úr ákvörðun sinni nr. 11/2015 eigi síðar en 25. nóvember nk.

Samkeppniseftirlitið hefur úrskurð Persónuverndar nú til skoðunar. Nafn viðkomandi einstaklings hefur þegar verið afmáð úr ákvörðun nr. 11/2015, eins og hún er birt á heimasíðu eftirlitsins, í samræmi við úrskurð Persónuverndar.