21.1.2016

Vegna umfjöllunar um sölu á eignarhlut Landsbankans í Borgun

Í fjölmiðlum í gær og dag hefur verið fjallað um samningsforsendur við sölu Landsbankans á eignarhlut sínum í Borgun á árinu 2014. Í fjölmiðlum hefur bankastjóri Landsbankans m.a. vísað til krafna og þrýstings sem Samkeppniseftirlitið hafi sett á bankann. Vegna þessa er rétt að rifja eftirfarandi upp:

Þann 18. desember 2014 greindi Samkeppniseftirlitið frá því á heimasíðu sinni að Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Borgun og Valitor hefðu hvert um sig gert sátt við Samkeppniseftirlitið vegna rannsóknar þess á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Með sáttunum viðurkenndu þessir aðilar að tiltekin framkvæmd á greiðslukortamarkaði hefði ekki verið í samræmi við samkeppnislög. Jafnframt féllust þessir aðilar á að gera breytingar á starfsemi sinni og greiddu sektir, samtals að fjárhæð 1.620 milljónir kr.

Fyrrgreindum sáttum er ætlað að leiða til mikilvægra breytinga á greiðslukortamarkaði. Megintilgangurinn með þeim er að stuðla að aukinni hagkvæmni í greiðslukortaþjónustu með því að skapa grundvöll fyrir sterkara aðhald viðskiptavina, stuðla að samkeppnislegu jafnræði keppinauta á sviði færsluhirðingar og greiðslukortaútgáfu, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum í starfsemi fjármálafyrirtækja á greiðslukortamarkaði, og að öðru leyti stuðla að virkari samkeppni á sviði kortaútgáfu og færsluhirðingar.

Í því skyni að ryðja samkeppnishindrunum úr vegi skuldbundu bankarnir sig m.a. til þess að gera breytingar til frambúðar á eignarhaldi á kortafyrirtækjunum. Þannig er hverjum þessara banka nú óheimilt að eiga eignarhlut í greiðslukortafyrirtæki með öðrum íslenskum viðskiptabanka. Eins og kunnugt er höfðu greiðslukortafyrirtækin tvö verið til lengri tíma í sameiginlegri eigu keppinauta á fjármálamarkaði. Sú skipan var að mati Samkeppniseftirlitsins ein af meginástæðum þeirra samkeppnishindrana sem sýnt hefur verið fram á.

Í tilviki eignarhalds bankanna á Borgun skal það tekið fram að það var ekki skilyrði Samkeppniseftirlitsins að Landsbankinn fremur en Íslandsbanki seldi sig út úr félaginu, sbr. eftirfarandi úr gr. 2.4 í sátt Samkeppniseftirlitsins við Íslandsbanka:

„Íslandsbanka er heimilt að leita samninga við Landsbankann um að annar bankinn kaupi út hlut hins eða um sölu á hlut beggja eða annars hvors til þriðja aðila.“

Áður en Samkeppniseftirlitið lauk sátt við Landsbankann í málinu hafði bankinn selt hlut sinn í Borgun og Valitor. Ekki kom því til þess að Samkeppniseftirlitið setti bankanum tímamörk eða önnur bindandi skilyrði varðandi fyrirkomulag á sölu eignarhluta. Sala Landsbankans á hlutum sínum í Borgun og Valitor og tilhögun hennar var því alfarið á forræði og á ábyrgð Landsbankans.

Í frétt í Fréttablaðinu í dag er jafnframt haft eftir bankastjóranum að Landsbankinn hafi haft takmarkað aðgengi að upplýsingum um Borgun vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að Samkeppniseftirlitið getur ekki fallist á að ráðstafanir eftirlitsins hafi haft áhrif á skilmála eða viðskiptakjör umræddrar sölu.

Nánari upplýsingar má nálgast á þessarri upplýsingasíðu.