4.2.2016

Endanlegar lyktir olíusamráðsmálsins

Hæstiréttur staðfestir að olíufélögin hafi gerst sek um langvarandi brot á samkeppnislögum

Með dómum uppkveðnum í dag hefur Hæstiréttur Íslands staðfest dóma héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. janúar 2015 í samráðsmáli olíufélaganna.

 Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að olíufélögin (Skeljungur, Olís og Ker (áður Olíufélagið) hafi gerst sek um langvarandi alvarlegt samráð um verð o.fl. Um hafi verið að ræða „verulega skaðlega háttsemi fyrir samfélagið allt“. Brot olíufélaganna hafi verið „þaulskipulagt og æðstu stjórnendur þess tóku þátt í því gegn betri vitund.“ Var Samkeppniseftirlitið sýknað af kröfu olíufélaganna um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 2005 yrði felldur úr gildi.

 Forsaga málsins er sú að forveri Samkeppniseftirlitsins, samkeppnisráð, tók ákvörðun þann 28. október 2004 og komst að þeirri niðurstöðu að Olís, Skeljungur og Olíufélagið hefðu framið mjög alvarleg brot á samkeppnislögum. Samkeppnisráð ákvað að leggja verulegar sektir á félögin. Olíufélögin kærðu ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp úrskurð 31. janúar 2005. Áfrýjunarnefnd staðfesti í öllum aðalatriðum niðurstöðu samkeppnisráðs um brotin og taldi hæfilegt að sektir olíufélaganna næmu samtals 1,5 milljörðum króna.

Með úrskurði áfrýjunarnefndar í janúar 2005 lauk málsmeðferð samkeppnisyfirvalda. Síðar á árinu 2005 ákváðu olíufélögin hins vegar að skjóta úrskurði áfrýjunarnefndar til héraðsdóms Reykjavíkur og féll dómur í því máli í mars 2012. Málareksturinn í héraði tók því afar langan tíma í héraði, einkum vegna gagnaöflunar í formi matsgerða sem félögin töldu nauðsynlegt að ráðast í.

 Í dómi Héraðsdóms frá mars 2012 var staðfest að félögin hefðu haft með sér ólögmætt samráð, en úrskurður áfrýjunarnefndar var þrátt fyrir það felldur úr gildi vegna þess að dómurinn taldi að brotið hefði verið á andmælarétti félaganna. Samkeppniseftirlitið gat ekki fallist á þá niðurstöðu og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem kvað upp dóm í lok janúar 2013. Hæstiréttur vísaði máli félaganna frá héraðsdómi vegna verulegra galla á málatilbúnaði þeirra. Að mati Hæstaréttar var ágallinn það alvarlegur að hann varðaði frávísun málsins í heild sinni frá dómstólum. Það dómsmál félaganna var því ónýtt og framangreindur úrskurður áfrýjunarnefndar frá 2005 stóð því óhaggaður.

 Í kjölfar dóms Hæstaréttar frá janúar 2013 höfðuðu olíufélögin ný dómsmál sem miðuðu aftur að því að fá framangreindum úrskurði áfrýjunarnefndar hnekkt. Dómar í héraði í þeim málum máli voru, sem fyrr segir, kveðnir upp 19. janúar 2015 og með dómum Hæstaréttar í dag eru dómar héraðsdóms staðfestir með vísan til forsendna þeirra. Dómar Hæstaréttar í dag fela í sér endanlegar lyktir í samráðsmáli olíufélaganna. Í hnotskurn er niðurstaða málsins sú að Hæstiréttur fellst á það með samkeppnisyfirvöldum að olíufélögin hafi framið mjög alvarleg brot á samkeppnislögum og að hæfilegar sektir félaganna skuli nema samtals 1,5 milljörðum króna. Einnig felst í þessu að Hæstiréttur fellst ekki á það með olíufélögunum að gallar hafi verið á málsmeðferð samkeppnisyfirvalda eða réttaröryggis félaganna hafi ekki verið gætt.

 Samráð olíufélaganna fól í sér að beita ólögmætum aðferðum til að hagnast sem mest á kostnað neytenda og allra þeirra fyrirtækja sem nýttu olíuvörur í rekstri sínum á brotatímabilinu. Í dómunum (og í úrskurði áfrýjunarnefndar og ákvörðun samkeppnisráðs) er gerð grein fyrir miklum ólögmætum ávinningi olíufélaganna af þessum brotum og rökstutt að þau hafi verið til þess fallin af valda verulegum skaða í samfélaginu. Eftir að niðurstaða samkeppnisyfirvalda lá fyrir á árinu 2005 höfðuðu ýmsir viðskiptavinir olíufélaganna skaðabótamál vegna þess tjóns sem samráð olíufélaganna olli þeim. Með dómum Hæstaréttar á sínum tíma voru m.a. Vestmannaeyjabæ, Reykjavíkurborg og Strætó bs. dæmdar bætur. Í fjölmiðlum hefur verið greint frá því að olíufélögin hafi greitt m.a. Stoðum (vegna Flugleiða), AlcanRioTinto og 100 einstaklingum (sem Neytendasamtökin önnuðust fyrirsvar fyrir) skaðabætur vegna samráðsins. Bakgrunnsupplýsingar:

Umrædd brot olíufélaganna eru umfangsmestu samráðsbrot sem upprætt hafa verið hér á landi til þessa. Stóð skipulögð brotastarfsemi olíufélaganna óslitið frá a.m.k. árinu 1993 til ársloka 2001 og er í ákvörðun samkeppnisráðs gerð grein fyrir um 500 samráðstilvikum. Í málflutningi sínum hafa olíufélögin lagt mikla áherslu á að dregið hafi úr samráði félaganna á seinni hluta samráðstímabilsins. Áfrýjunarnefnd féllst á það með samkeppnisráði að svo hafi ekki verið. Taldi nefndin að samráðið hafi verið mun alvarlegra, skipulagðara og tíðara á tímabilinu 1996-2001 en á tímabilinu 1993-1995.

Samráð olíufélaganna skiptist í aðalatriðum í þrjá höfuðflokka:

  • Samráð um verðlagningu á fljótandi eldsneyti, gasi, smurolíu og tengdum vörum. Höfðu félögin reglubundið samráð um verðbreytingar á þessum olíuvörum. Þau höfðu einnig samráð um að hækka álagningu og auka framlegð. Félögin höfðu einnig samvinnu um að draga úr afslætti og leggja gjöld á hópa viðskiptavina. Bitnuðu þessi brot á almennum neytendum og fyrirtækjum.

  • Olíufélögin höfðu með sér umfangsmikið samráð um gerð tilboða í tengslum við formleg útboð eða verðkannanir viðskiptavina sinna. Dæmi um þolendur þessa samráðs olíufélaganna voru Reykjavíkurborg, Síminn, Landhelgisgæslan, Icelandair(Flugleiðir), Flugfélag Íslands, dómsmálaráðuneytið og Vestmannaeyjabær. Hafði samráð þetta m.a. þann tilgang að vinna gegn því að viðskiptavinir næðu hagstæðara verði með útboðum.

  • Olíufélögin gripu til margs konar aðgerða í því skyni að skipta á milli sín markaðnum fyrir olíuvörur hér á landi. Aðgerðirnar miðuðu að því að skipta á milli félaganna markaðnum eftir landsvæðum, viðskiptavinum eða eftirsölu og magni. Félögin náðu t.d. samkomulagi um að Skeljungur myndi sitja einn að bensínsölu í Grindavík og þau skiptu með sér viðskiptum t.d. á Ísafirði og Stykkishólmi. Þá skiptu þau á milli sín sölu til stórra viðskiptavina eins t.d. gagnvart álverinu í Straumsvík og SR-mjöli. Þetta gerðu þau án vitneskju viðkomandi viðskiptavina.

Til að framkvæma þetta samráð áttu olíufélögin í tíðum og skipulögðum samskiptum sín á milli. Stjórnendur olíufélaganna tóku þátt í fundahöldum, m.a. hittust forstjórar félaganna iðulega til að skipuleggja og taka ákvarðanir um atriði sem voru hluti af hinu ólöglega samráði. Þá var skipst á orðsendingum og upplýsingum sem vörðuðu samráðið í tölvupósti, símtölum eða símbréfum. Var félögunum fyllilega ljóst að um ólögmæta háttsemi var að ræða enda var að finna í gögnum málsins fyrirmæli um leynd og eyðingu sönnunargagna.