12.2.2016

Vegna umfjöllunar um samskipti atvinnulífsins við Samkeppniseftirlitið

Í opinberri umræðu síðustu daga hefur Samkeppniseftirlitið verið gagnrýnt fyrir vinnubrögð sín gagnvart atvinnulífinu. Hér er vísað til greinar framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu í Fréttablaðinu þann 10. febrúar sl., viðtals við hann á Bylgjunni sama dag og viðtals við nýkjörinn formann Viðskiptaráðs Íslands í Kastljósi þann 11. febrúar.

Í þessari umfjöllun er látið að því liggja að forsvarsmenn atvinnulífsins veigri sér við því að gagnrýna störf Samkeppniseftirlitsins af ótta við hefndaraðgerðir eða offors af þess hálfu. Þá telur framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu að forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins sái fræjum tortryggni í garð atvinnurekenda. Þessi vinnubrögð valdi því að viðhorf almennings gagnvart íslensku atvinnulífi sé miklu neikvæðara en gagnvart dönsku atvinnulífi, samkvæmt könnun sem gerð var árið 2014. Enginn rökstuðningur fylgir þessum ályktunum umræddra talsmanna atvinnulífsins.


Að þessu tilefni er rétt að taka eftirfarandi fram:

Á þeim áratug sem liðinn er frá stofnun Samkeppniseftirlitsins hefur það átt í tíðum og gagnlegum samskiptum við atvinnufyrirtæki í landinu. Fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum stendur ávallt til boða að fá fund með eftirlitinu, til þess að fá leiðbeiningu um tiltekin álitaefni, ræða úrlausn yfirstandandi mála eða benda á það sem betur mætti fara. Eftirlitið leitast við að leysa úr óformlegum erindum af þessu tagi, eftir því sem mögulegt er vegna anna og eðlis viðkomandi mála.

Stjórnendur fyrirtækja nýta sér þennan möguleika. Í hverjum mánuði koma tugir þeirra til fundar við eftirlitið. Fjölmargir stjórnendur hafa einnig sótt námskeið sem Samkeppniseftirlitið hefur staðið fyrir um samkeppnislögin, eitt eða í samstarfi við aðra.

Við gagnaöflun þarf Samkeppniseftirlitið oft á tíðum að leita upplýsinga úr starfsemi fyrirtækja, sem jafnvel eru ekki beinir aðilar að viðkomandi rannsókn. Í meginþorra tilvika bregðast fyrirtæki greiðlega við slíkum gagnabeiðnum. Ber að þakka það.

Til vitnis um rík samskipti milli atvinnulífsins og Samkeppniseftirlitsins er að síðustu tíu ár hafa um 75% rannsókna eftirlitsins verið reist á formlegum kvörtunum frá fyrirtækjum í landinu. Sá fjórðungur rannsókna sem eftir stendur á undantekningalítið rætur að rekja til ábendinga frá atvinnufyrirtækjum.

Samkeppnislög eru sett til að tryggja m.a. að fyrirtæki raski ekki samkeppni með aðgerðum sínum og valdi þar með almenningi og öðrum fyrirtækjum tjóni. Samkeppniseftirlitinu er ætlað að rannsaka brot á samkeppnislögum. Eðli máls samkvæmt getur ekki hjá því farið að ágreiningur rísi um niðurstöður og málsmeðferð eftirlitsins. Fyrirtæki nýta sér rétt sinn til að koma athugasemdum sínum á framfæri undir rekstri máls. Aðilar mála hafa einnig fullan rétt á að bera niðurstöður og málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins undir áfrýjunarnefnd og dómstóla.

Virk samkeppni hefur mikla þýðingu fyrir efnahagslega velferð og umræður um samkeppnismál því mikilvægar. Það horfir til framfara að sú umræða fari fram með málefnalegum hætti.