17.2.2016

Frestur til að koma á framfæri sjónarmiðum vegna eldsneytisskýrslu framlengdur um 3 vikur.

30. nóvember sl. birti Samkeppniseftirlitið frummatsskýrslu í tengslum við markaðsrannsókn sem nú stendur yfir á eldsneytismarkaðnum. Þar er fjallað með ítarlegum hætti um aðstæður og háttsemi á markaðnum og mögulegar aðgerðir til að ryðja samkeppnishindrunum úr vegi. Frummatsskýrslan er liður í markaðsrannsókn þar sem tekin er afstaða til þess hvort og þá hvaða samkeppnishindranir séu til staðar á eldsneytismarkaði.

Samkeppniseftirlitið óskaði eftir því að sjónarmið og athugasemdir við skýrsluna yrðu sendar eftirlitinu eigi síðar en föstudaginn 19. febrúar. Fram hefur komið ósk hagsmunaaðila um lengri frest til þess að skila inn rökstuddum sjónarmiðum. Af þeim sökum hefur Samkeppniseftirlitið framlengt frestinn um 3 vikur, eða til föstudagsins 11. mars.

Gert er ráð fyrir því að framkomin sjónarmið verði birt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Því er mikilvægt að þeir sem senda inn sjónarmið auðkenni hvaða upplýsingar í þeim eru háðar trúnaði að þeirra mati. Í þeim tilvikum er óskað eftir því að send séu tvö eintök, annað án trúnaðarupplýsinga (birt á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins) og hitt með trúnaðarupplýsingum (ekki birt). Samkeppniseftirlitið hvetur áhugasama til að nýta sér þetta tækifæri til að koma sjónarmiðum á framfæri.

Nánari upplýsingar um rannsóknina má finna á upplýsingasíðu um málið.