20.9.2016

Opinn fundur í tengslum við markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins

Þriðjudaginn 20. september nk., mun Samkeppniseftirlitið halda opinn fund, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglna nr. 490/2013, um samkeppnisaðstæður á eldsneytismörkuðum. Fundurinn er liður í fyrirstandandi markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði.

Á fundinum verður fjallað um sjónarmið sem fram hafa komið í kjölfar frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins sem birt var í desember á síðasta ári. Varpað verður nánara ljósi á mismunandi viðhorf hagsmunaaðila og gerð grein fyrir samkeppnisaðstæðum á erlendum eldsneytismörkuðum. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, mun stjórna pallborðsumræðum.

Nánari upplýsingar um fundinn má nálgast á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins http://www.samkeppni.is/samkeppnisreglur/markadsrannsokn/ . Þar er einnig að finna viðtöl við ýmsa viðmælendur um samkeppnisaðstæður á eldsneytismarkaði.

Frá því að sjónarmið bárust umfrummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins hefur eftirlitið farið yfir helstu athugasemdir og tekið afstöðu til þess hvaða frekari vinnu þurfi að ráðast í við mótun á niðurstöðum eftirlitsins. Í framhaldi af fundinum mun Samkeppniseftirlitið taka afstöðu til framkominna sjónarmiða, að hvaða leyti þau hafi áhrif á niðurstöður frummatsins og hvort þá sé ástæða til þess að grípa til íhlutana á grundvelli c-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga.

Hægt er að taka þátt í undirbúningi fundarins með því að senda inn spurningar sem nýst geta í umræðum í pallborði. Óskast þær sendar á samkeppni@samkeppni.is