21.9.2016

Vel sóttur fundur um samkeppnisaðstæður á eldsneytismarkaði – Næstu skref

Samkeppniseftirlitið stóð fyrir opnum fundi um samkeppnisaðstæður á eldsneytismarkaði. Fundurinn er liður í fyrirstandandi markaðsrannsókn. Vel á annað hundrað manns sóttu fundinn. 

Á fundinum spunnust gagnlegar umræður um mögulegar samkeppnishindranir og hugsanlegar úrbætur á markaðnum. Til grundvallar umræðunni lá frummatsskýrsla Samkeppniseftirlitsins sem birt var í lok síðasta árs. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, stýrði umræðum í tveimur pallborðum, sjá nánar dagskrá. Fundarstjóri var Guðrún Ragnarsdóttir, formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins.

 Á fundinum voru spiluð fjögur eftirtalin myndbönd:

  • Samantekt viðtala sem Samkeppniseftirlitið tók við forstjóra þýska samkeppniseftirlitsins, forsvarsmenn breska og portúgalska eftirlitsins og Severin Borenstein, prófessor í hagfræði við Berkley háskóla. Viðtölin eru einnig aðgengileg í fullri lengd á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

  • Samantekt á helstu niðurstöðum frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins.

  • Samantekt á sjónarmiðum hagsmunaaðila um aðgangshindranir og samhæfða hegðun.

  • Samantekt á sjónarmiðum hagsmunaaðila um verðsamanburð, álagningu, arðsemi og mögulegum úrbótum.

 Á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins er einnig að finna viðtöl við Frosta Ólafsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri KEMI, Jóhannes Gunnarsson, formann Neytendasamtakanna og Tryggva Axelsson, forstjóra Neytendastofu.

 Nánari upplýsingar um fundinn má nálgast á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

 Næstu skref:

Nú liggur fyrir Samkeppniseftirlitinu að taka nánari afstöðu til frummatsins sem fram kemur í fyrrgreindri skýrslu, með vísan til þeirra sjónarmiða og gagna sem aflað hefur verið undanfarið. Í grófum dráttum getur niðurstaða eftirlitsins verið á þrenna vegu: 

  • Í fyrsta lagi kann eftirlitið að telja ástæðu til þess að undirbúa íhlutun vegna nánar tiltekinna aðstæðna. Verði þetta niðurstaðan rannsakar eftirlitið þann þátt málsins nánar, birtir aðilum þeirrar rannsóknar andmælaskjal og tekur að því búnu ákvörðun. 

  • Í öðru lagi kann eftirlitið að beina tilmælum um breytingar til stjórnvalda eða fyrirtækja vegna tiltekinna aðstæðna á markaðnum. 

  • Í þriðja lagi kann niðurstaðan að vera sú að ekki sé þörf á frekari umfjöllun Samkeppniseftirlitsins. Ástæða þess kann t.d. að vera að eftirlitið hverfi frá frummati sínu vegna fram kominna sjónarmið, aðstæður hafi breyst eða úrræði séu ekki til staðar. 

Á þessu stigi getur niðurstaða eftirlitsins verið eitthvað af þessu þrennu, eða blanda af öllum þremur leiðunum. 

Samkeppniseftirlitið stefnir að því að niðurstaða um þessi næstu skref liggi fyrir og hún verði kynnt í kringum næstu áramót. Við mótun þeirrar niðurstöðu munu framkomin sjónarmið koma að góðum notum.