16.12.2009

Samkeppniseftirlitið beinir því til stjórnvalda að huga að samkeppnissjónarmiðum í tenglum við skipulagsmál og úthlutun lóða

Samkeppniseftirlitið beinir því til stjórnvalda að huga að samkeppnisjónarmiðum í tengslum við skipulagsmál og úthlutun lóða

SE_SkjaldamerkiDæmi eru um að skipulagsákvarðanir og lóðaúthlutanir hafi raskað samkeppni – nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að sporna við því.

Samkeppniseftirlitið hefur í dag beint því til umhverfisráðherra að beita sér fyrir breytingum á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga til að tryggja að horft sé til samkeppnissjónarmiða við skipulag og úthlutun lóða.

Jafnframt beinir Samkeppniseftirlitið því til sveitarfélaga á Íslandi að hafa átta meginreglur til hliðsjónar við skipulagsmál og úthlutun lóða. Í þeim er m.a. mælst til eftirfarandi:

  • Að lagt sé samkeppnislegt mat á skipulag hverfa.
  • Að úthlutun lóða fari fram með útboði eða öðrum gagnsæjum hætti.
  • Að gerðar verði ráðstafanir, eins og mögulegt er, til þess að ný eða smærri fyrirtæki fái lóðir fyrir atvinnustarfsemi sína og komið í veg fyrir að markaðs-ráðandi fyrirtæki geti setið á lóðum.
  • Að sveitarfélög beiti sér gegn samkeppnishamlandi kvöðum í lóðarleigu-samningum.

Þessi tilmæli koma fram í sérstöku áliti, nr. 3/2009, Skipulag, lóðaúthlutanir og samkeppni.

Ljóst er að löggjafinn, sveitarfélög eða önnur yfirvöld hafa ekki markað sér skýra stefnu um áhrif samkeppnissjónarmiða á gerð og framkvæmd skipulagsáætlana og við einstakar lóðaúthlutanir sveitarfélaga. Reynslan sýnir að það getur haft töluverð áhrif á samkeppnisaðstæður hvernig skipulagsmálum og lóðaúthlutunum er háttað. Vísað er í álitinu m.a. í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnulífs, en þar er að finna ítarlega umfjöllun um skipulagstilvik á matvörumarkaði, olíumarkaði og sjóflutningamarkaði, sem ætla má að falið hafi í sér röskun á samkeppni. Þá eru dregin fram almenn dæmi sem sýna að samkeppnissjónarmið þurfa að fá ríkari sess við skipulag og lóðaúthlutanir.

Til lengri tíma litið er nauðsynlegt, ekki síst vegna þeirrar efnahagskreppu sem nú ríður yfir íslenskt samfélag, að skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir breytingum á lögum og reglum, og ekki síst verklagi við skipulagsmál og úthlutun lóða. Það er mikilvægt til þess að efla virka samkeppni til framtíðar að þessar tillögur fái jákvæð viðbrögð hjá skipulagsyfirvöldum.

Að mati Samkeppniseftirlitsins geta þessi tilmæli stuðlað að því að landfræðilegir markaðir haldist opnir og þannig verði komið í veg fyrir óþarfar opinberar aðgangshindranir. Tilmælin miða að því að ýta undir kraftmikið atvinnulíf til lengri tíma og auka ávinning neytenda. Þetta er ekki síst mikilvægt við endurreisn efnahagslífsins.

Bakgrunnsupplýsingar
Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi, sem kom út í nóvember 2008, var sérstaklega vikið að mikilvægi skipulagsmála í einstökum köflum varðandi matvörumarkað, olíumarkað og sjóflutningsmarkað.

Í kjölfar útgáfu skýrslu Samkeppniseftirlitsins var óskað eftir sjónarmiðum frá umhverfisráðuneytinu, samgönguráðuneytinu, stærri sveitarfélögum og fleiri aðilum sem málið varðar. Jafnframt voru ýmis sveitarfélög beðin um að svara tilteknum spurningum um lóðaúthlutanir og skipulagsmál. Bárust athugasemdir frá flestum aðilum sem Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar við gerð álitsins.

Samkvæmt samkeppnislögum er Samkeppniseftirlitinu ætlað það hlutverk að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila á markaði. Þetta gerir Samkeppniseftirlitið m.a. með því að beina opinberum álitum til stjórnvalda.

Sjá einnig eftirfylgni árið 2016