2.3.2017

Tólf fundir um það hvernig stjórnvöld geta eflt íslenskt efnahagslíf með endurbættu regluverki

Dagana 22.-24. febrúar sl. átti Ania Thiemann, einn af stjórnendum samkeppnisdeildar OECD, tólf fundi hér á landi með opinberum stofnunum og hagsmunasamtökum í atvinnulífinu. Á fundunum var rætt um áhrif laga og reglna og annarra stjórnvaldsfyrirmæla á samkeppni og efnahagslíf. Sérstaklega var farið yfir hvernig nýta mætti svokallað samkeppnismat til þess að draga úr samkeppnishindrunum sem stafað geta af þeirri umgjörð sem stjórnvöld búa atvinnulífi.
Samkeppniseftirlitið bauð Aniu hingað til lands og stóð að skipulagi fundanna í samstarfi við viðkomandi ráðuneyti, stofnanir og hagsmunaaðila. Um 120 manns frá um 30 aðilum (ráðuneytum, opinberum stofnunum og hagsmunasamtökum) sóttu fundina tólf. 

OECD hefur um árabil bent á mikilvægi þess fyrir efnahag ríkja að hugað sé að áhrifum laga, reglna og stjórnvaldsákvarðana á samkeppni. Í þessu efni hefur OECD mótað verklag við svokallað samkeppnismat (Competition Assessment Toolkit). Stjórnvöld geta beitt því til að efla samkeppni eða takmarka samkeppnishindranir sem stafað geta af lögum, reglum og stjórnvaldsfyrirmælum. Þetta verklag dregur m.a. úr óþarfa reglubyrði á atvinnulíf, en slík reglubyrði felur alla jafna í sér samkeppnishindranir. 

Ania Thiemann hefur á síðustu árum aðstoðað stjórnvöld ríkja við að tileinka sér aðferðafræði samkeppnismats og stýrt úttektum á tilteknum mörkuðum einstakra aðildarríkja. Í slíkum úttektum er aðferðafræði OECD beitt til að koma auga á samkeppnishindranir sem leiða af gildandi lögum og reglum, meta áhrif þeirra á efnahag viðkomandi lands og leggja til breytingar. 

Flest aðildarríki OECD beita samkeppnismati við undirbúning nýrra laga og reglna. Ýmis ríki hafa einnig endurskoðað gildandi regluverk, með góðum árangri. Þekktast er átak sem stjórnvöld í Ástralíu réðust í, með það að markmiði að draga úr reglubyrði og auka samkeppni. Í kjölfar átaksins hefur framleiðni í Ástralíu verið viðvarandi vel yfir meðaltali aðildarríkja OECD.

Ania þekkir til hér á landi, því í byrjun desember 2015 stóð Samkeppniseftirlitið fyrir almennum fundi með henni um sama efni.  Nú var því samtali haldið áfram og varpað nánara ljósi á mögulegar leiðir til að styrkja efnahagslíf landsins með bættri umgjörð hins opinbera.  

Samkeppniseftirlitið færir þeim bestu þakkir sem skipulögðu fundina og tóku þátt.

 Hér má nálgast nokkrar af þeim glærum sem Ania byggði kynningu sína á.