15.3.2017

Taka þarf afstöðu til mögulegra breytinga á yfirráðum strax á  undirbúningsstigi viðskipta

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um viðskipti með eignarhluti í Ölgerð Egils Skallagrímssonar og frá því sagt að aðilar viðskiptanna hafi beðið eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins að óþörfu.

Af þessu tilefni er rétt að fram komi að aðilar viðskiptanna sendu í tvígang samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins, án þess að ljóst væri hvort þeir teldu sjálfir að um samruna væri að ræða. Í fyrra skiptið taldi eftirlitið ekki forsendur til þess að taka málið til rannsóknar þar sem aðilar viðskiptanna voru sjálfir þeirrar skoðunar að ekki væri um samruna að ræða og gögn málsins gáfu ekki aðra niðurstöðu til kynna. Lá sú afstaða eftirlitins fyrir í lok október. Í kjölfar frekari samskipta setti eftirlitið fram nánari leiðbeiningu um til hvaða atriða þyrfti að líta við mat á því hvort til sameiginlegra yfirráða hefði stofnast. Málsaðilum var svo tilkynnt um að málinu væri lokið af hálfu Samkeppniseftirlitsins í byrjun desember.

Í kjölfarið var eftirlitinu þó aftur tilkynnt um viðskiptin þrátt fyrir að  umgjörð eignarhaldsins hefði verið breytt þannig að enn ólíklegra væri að til yfirráða stofnaðist. Breytingar á yfirráðum eru forsenda þess að um tilkynningarskyldan samruna sé að ræða. Engu að síður sendu aðilar nýja samrunatilkynningu í því skyni að knýja á um afstöðu Samkeppniseftirlitsins. Niðurstaðan var sú að ekki væri um samruna að ræða.

Efni ræður, ekki form

Mál þetta sýnir hversu mikilvægt það er að aðilar viðskipta taki strax á undirbúningsstigi skýra afstöðu til þess hvort viðskiptin leiði til breytinga á yfirráðum. Niðurstaðan ræðst af því hver hin raunverulega staða verður eftir viðskiptin. Þannig hefur form samninga eða stærð eignarhluta ekki einungis þýðingu, heldur getur undirliggjandi óformleg samstaða kaupendanna t.d. skipt máli við mat á þessu.

Af þessari ástæðu eru engir betur til þess fallnir en kaupendurnir og lögmenn þeirra að meta hvort um ný yfirráð sé að ræða, og þar af leiðandi hvort viðskiptin feli í sér tilkynningarskyldan samruna. Sökum þessa er í samkeppnisrétti lagt til grundvallar að aðilar viðkomandi viðskipta beri ábyrgð á því að meta hvort þau feli í sér samruna sem tilkynna ber til Samkeppniseftirlitsins.

Tilmæli

Með hliðsjón af framangreindu beinir Samkeppniseftirlitið þeim eindregnu tilmælum til þeirra sem undirbúa viðskipti að taka þegar í upphafi skýra afstöðu til þess hvort viðskiptin leiði til breytinga á yfirráðum. Að öðrum kosti er hætta á að framkvæmd viðskiptanna dragist og tíma kaupenda, seljenda og eftirlitsaðila sé eytt að óþörfu.