19.5.2017

Af gefnu tilefni vill Samkeppniseftirlitið taka fram eftirfarandi:

Í tengslum við samruna Vodafone og 365 afhentu samrunaaðilar eftirlitinu eintak af samrunatilkynningu þar sem fjarlægðar höfðu verið upplýsingar sem háðar væru trúnaði að mati samrunaaðila.  Var samrunaaðilum gerð grein fyrir því að til stæði að birta skjalið opinberlega.

Með fréttatilkynningu, dags. 10. maí sl., óskaði Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum og athugasemdum vegna samruna Vodafone og 365. Samhliða birti Samkeppniseftirlitið rafrænt skjal frá samrunaaðilum (samrunatilkynningu) þar sem að þeirra sögn höfðu verið felldar út trúnaðarupplýsingar.

Skömmu eftir birtingu skjalsins kom í ljós að samrunaaðilar höfðu ekki fellt framangreindar upplýsingar út úr skjalinu með nægilega tryggilegum hætti. Með tilteknum rafrænum hætti var unnt að kalla fram upplýsingar sem felldar höfðu verið brott úr skjalinu. Samkeppniseftirlitið greip þegar til aðgerða til að girða fyrir þennan möguleika með því að fjarlægja af heimasíðunni það skjal sem samrunaðilar kváðu án trúnaðarupplýsinga. Var þess í stað birt eintak þar sem ekki var unnt að nálgast umræddar upplýsingar.

Þeim eindregnu tilmælum er beint til þeirra sem hafa gripið til ráðstafana til þess að nálgast hinar útfelldu upplýsingar að eyða viðkomandi upplýsingum og miðla þeim ekki. Minnt er á að það getur varðað við lög að miðla og dreifa upplýsingum sem leynt eiga að fara.

Bakgrunnsupplýsingar:

Í 16. gr. reglna nr. 880/2005, um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, kemur fram að ef aðilar máls láta Samkeppniseftirlitinu í té gögn eða upplýsingar sem að mati þeirra eiga leynt að fara skuli þeir óska eftir því að farið verði með upplýsingarnareða gögnin sem trúnaðarmál. Skulu aðilar máls láta Samkeppniseftirlitinu í té eintak af viðkomandi gögnum þar sem slíkar upplýsingar hafa verið felldar á brott. Ef ekki er sett fram ósk um trúnað er Samkeppniseftirlitinu rétt að líta svo á að viðkomandi gögn eða upplýsingar innihaldi ekki trúnaðarupplýsingar. Af þessu leiðir að þeir sem senda skjöl til eftirlitsins, sem hafa að geyma trúnaðarupplýsingar, bera ábyrgð á því að slíkar upplýsingar séu felldar út með fullnægjandi hætti.

Þessi skylda hvílir á aðilum máls svo Samkeppniseftirlitið geti treyst því að unnt sé að miðla skjalinu til þeirra sem leitað er sjónarmiða hjá. Það er liður í rannsóknarskyldu Samkeppniseftirlitsins, og e.a. andmælarétti aðila samkvæmt stjórnsýslulögum, að búa svo um hnútana að þeir sem leitað er sjónarmiða hjá geti kynnt sér mál og með því komið á framfæri fyllri sjónarmiðum.