6.6.2017

Lyfjakaup Landsspítalans og samkeppnismat

Í Kastljósi þann 1. júní var fjallað um innkaup Landsspítalans á lyfjum. M.a. var vikið að ákvæðum í lögum um opinber innkaup sem kveða á um að svokallað samkeppnismat sé hluti af undirbúningi að innkaupasamstarfi með öðru ríki innan EES-svæðisins. Í umfjöllun Kastljóss er haft eftir forsvarsmönnum Landsspítalans að þessi skylda til samkeppnismats hafi tafið og eftir atvikum komið í veg fyrir samstarf spítalans við nágrannalönd við innkaup á lyfjum.


Af þessu tilefni er rétt að fram komi að umrætt samkeppnismat hefur þann tilgang að tryggja að fyrirkomulag útboðs hindri ekki samkeppni og gangi með því gegn markmiði sínu. Almennt er mikilvægt að opinberir aðilar undirbúi útboð sem best og hugi m.a. að því að þau séu útfærð þannig að þau skili tilætluðum árangri.


Samkeppnismatið sem hér á í hlut er mjög einfalt í framkvæmd. Það felur í raun í sér útfyllingu á stuttu eyðublaði sem Ríkiskaup hafa útfært í samráði við Samkeppniseftirlitið.


Einungis hefur reynt tvisvar á umrædda skyldu til að framkvæma samkeppnismat. Í báðum tilvikum staðfesti Samkeppniseftirlitið matið eða veitti jákvæða umsögn.


Athygli vekur að Landsspítalinn hefur aldrei látið reyna á umrætt ákvæði. Vandséð er því hvernig spítalinn getur haldið því fram að samkeppnismat hafi staðið í vegi fyrir innkaupasamstarfi.


Í nefndaráliti fjárlaganefndar frá september 2016, vegna frumvarps til laga um opinber innkaup, sem urðu að lögum nr. 120/2016, vakti nefndin athygli á því að lítið hefði reynt ákvæðið. Taldi nefndin miður að Landsspítalinn skyldi ekki hafa látið reyna á samkeppnismatið. Taka má undir það með nefndinni.


Að mati Samkeppniseftirlitsins er full þörf á að virkja betur samkeppni við innkaup á lyfjum á Íslandi, t.a.m. með því að kanna möguleikann á sameiginlegum innkaupum með nágrannaþjóðum. Í því ljósi er umfjöllun Kastljóss um málefnið allrar athygli verð. Mikilvægt er að Landsspítalinn, sem stór kaupandi, nýti sér þau tæki sem honum standa til boða. Hefur Samkeppniseftirlitið í hyggju að fylgja þessu máli nánar eftir.