12.9.2017

Samstarf Norðurlandanna í samkeppnismálum styrkt

Forstjórar samkeppniseftirlitanna á Norðurlöndum undirrituðu í dag, f.h. ríkisstjórna landanna, samning um samvinnu eftirlitanna í samkeppnismálum. Um er að ræða útvíkkun og styrkingu á fyrri samningi eftirlitanna frá árinu 2003. 

Nýi samningurinn á að tryggja skilvirka framkvæmd samkeppnislöggjafar í hverju ríki fyrir sig. Hið aukna samstarf felst fyrst og fremst í gagnkvæmri aðstoð við upplýsingaöflun og vettvangsrannsóknir, en samkeppniseftirlit hvers samningsaðila getur óskað eftir upplýsingum eða framkvæmt vettvangsrannsóknir fyrir hönd og á vegum samkeppnisyfirvalda annars samningsaðila.  

Hvert norrænu samkeppniseftirlitanna skuldbindur sig til framangreinds samstarfs að því marki sem samkeppnislög í viðkomandi landi heimila. Meðal annars á Íslandi þarf að gera tilteknar breytingar á samkeppnislögum til þess að samningurinn taki að fullu gildi. 

Samstarf norrænu samkeppniseftirlitanna á sér áratuga langa sögu og eiga stjórnendur og sérfræðingar eftirlitanna reglulega fundi þar sem þekkingu er miðlað og aðstoð eftir atvikum veitt í einstökum málum.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
Samkeppniseftirlitið er virkur þátttakandi í samstarfi samkeppniseftirlita á norrænum, evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Með þátttöku sinni stuðlar eftirlitið að því að beiting íslensks samkeppnisréttar standist samanburð við það sem best gerist annars staðar. Það skiptir miklu máli fyrir íslensk fyrirtæki og neytendur og stuðlar að samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs.