9.10.2017

Samkeppniseftirlitið setur samruna Vodafone og 365 skilyrði til þess að tryggja samkeppni á fjarskipta- og fjölmiðlamörkuðum

Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað kaup Fjarskipta hf. (Vodafone) á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla hf. (365). Samruninn er háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Þannig hafa samrunaaðilar skuldbundið sig til þess að ráðast í aðgerðir til þess að tryggja samkeppni á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði. Jafnframt er aðgerðunum ætlað að stuðla að fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. 

Með samrunanum hverfur 365 af fjarskiptamarkaði sem sjálfstæður keppinautur, en verðstefna fyrirtækisins hefur skapað talsverða samkeppni á því sviði. Þá felur samruninn að óbreyttu í sér að keppinautum sem geta boðið „pakka“ fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu fækkar úr þremur í tvo. Sömuleiðis færist á eina hendi sterk staða 365 á sjónvarps- og útvarpsmarkaði og sterk staða Vodafone í dreifikerfum sjónvarps og útvarps. Meðal annars vegna þessa taldi Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt að grípa til íhlutunar vegna samrunans.

Eins og áður greinir hafa samrunaaðilar skuldbundið sig til þess að grípa til aðgerða til þess að tryggja samkeppni á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði og stuðla að fjölræði og fjölbreytni á síðarnefnda markaðnum. Aðgerðirnar eru meðal annars þessar:

 1. Nýjum og smærri keppinautum gert auðveldara að veita Vodafone og öðrum keppinautum samkeppnislegt aðhald.
  V
  odafone er gert skylt að selja nýjum og smærri keppinautum mikilvægar sjónvarpsrásir í heildsölu (t.d. Stöð2 og Stöð2 Sport). Með þessu er þeim gefinn kostur á að bjóða upp á pakka af fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu og með því auka samkeppni með árangursríkum hætti. Geta þeir hvort heldur sem er keypt sjónvarpsrásir einvörðungu, eða til viðbótar heildsöluaðgang að dreifingu á kerfum Vodafone og aðra stoðþjónustu. Þannig geta nýir og smærri aðilar valið hvort þeir dreifa sjónvarpsefni um eigin kerfi (t.d. með opnu dreifikerfi á sjónvarpi um Internetið (e. OTT)) eða kaupa jafnframt dreifingarþjónustu af t.d. Vodafone.

  Framangreint felur í sér miklar og jákvæðar breytingar á markaðnum. Smærri keppinautum hefur ekki áður boðist slíkur heildsöluaðgangur og er hann til þess fallinn að skapa þeim umtalsverð sóknarfæri og auka þar með samkeppni til hagsbóta fyrir almenning. Skilyrðin sem gilda gagnvart Vodafone eru einnig þannig úr garði gerð að þau eiga að skapa raunhæfa möguleika í aukinni samkeppni milli dreifikerfa á sjónvarpi. Nýir aðilar geta nú stigið fram og boðið upp nýja valkosti í samkeppni við hefðbundið form á dreifingu sjónvarps hér á landi. Stuðlar þetta að meiri framþróun en ella á bæði fjölmiðla- og fjarskiptamörkuðum.

  Í viðræðum við Vodafone lagði Samkeppniseftirlitið áherslu á að samruninn yrði ekki framkvæmdur fyrr en að búið væri að gera samning við a.m.k. einn nýjan eða smærri aðila um kaup á mikilvægum sjónvarpsrásum. Vegna þessa ákvað Vodafone að ganga til viðræðna við tiltekið fyrirtæki á fjarskiptamarkaði um samning af þessu tagi. Hefur samningur nú verið undirritaður. Býðst öðrum nýjum og smærri fyrirtækjum að gera sambærilega samninga eða ganga til viðræðna við Vodafone um annars konar samning sem sniðinn er að þörfum viðkomandi fyrirtækis.

  Framangreind skylda hvílir tímabundið á Vodafone, en með þessu er skapaður jarðvegur fyrir nýja og virka samkeppni, í stað þeirrar sem hverfur með samrunanum.

  Sjá nánar einkum 3. gr., 5.- 7. gr. og 15. gr. sáttarinnar við Vodafone.

 2. Aðgerðir til að efla fjölræði og fjölbreytni á sjónvarpsmarkaði
  Sjónvarpsstöðvar þurfa að reiða sig á aðgang að dreifikerfi Vodafone, m.a. í samkeppni við eigin sjónvarpsrekstur fyrirtækisins. Í því skyni að auka fjölræði og fjölbreytni hefur Vodafone skuldbundið sig til að auðvelda dreifingu fyrir smærri sjónvarpsstöðvar sem standa að dagskrárgerð með innlendu frétta- og menningarefni.

  Sjá nánar 17. gr. sáttarinnar við Vodafone.

 3. Neytendur njóti eðlilegrar hlutdeildar í þeim ábata sem samrunanum er ætlað að ná fram
  Við meðferð samrunamálsins hefur Vodafone lagt fram áætlanir um hagræðingu og bættan rekstur sameinaðs fyrirtækis. Á grundvelli þessara áætlana hefur Vodafone skuldbundið sig til að tryggja að neytendur njóti þessa ábata. Eru í sáttinni ákvæði sem ætlað er að tryggja þetta.

  Sjá nánar 22. gr. sáttarinnar við Vodafone.

 4. Aðgerðir til að vinna gegn skaðlegum áhrifum eignarhalds
  Eftir samrunann færast ljósvakamiðlar 365 og visir.is til Vodafone, en Fréttablaðið og frett.is/frettabladid.is verður áfram í eigu 365 miðla hf. Þannig verða 365 miðlar hf. og Vodafone keppinautar eftir samrunann. Jafnframt verður 365 miðlar hf. stór hluthafi í Vodafone. Af þeim sökum verða rík eignatengsl milli þessara keppinauta á fjölmiðlamarkaði. Getur sú staða haft neikvæð áhrif á samkeppni og fjölbreytni og fjölræði.

  Vegna framangreinds hafa 365 miðlar hf. skuldbundið sig til að rjúfa framangreind eignatengsl milli Fréttablaðsins og Vodafone, innan tiltekins tíma. Þannig munu 365 miðlar hf. annað hvort selja rekstur Fréttablaðsins og frett.is/frettabladid.is eða eignarhlut sinn í Vodafone (Fjarskiptum hf.). Þangað til það hefur verið gert hafa 365 miðlar hf. skuldbundið sig til að auka ekki við eignarhlut sinn í Vodafone. Jafnframt mun félagið ekki eiga fulltrúa í stjórn eða koma að vali stjórnarmanna, auk þess sem þeim er óheimilt að hlutast til um málefni Vodafone sem tengjast beint samkeppni við Fréttablaðið.

  Sjá nánar sátt við 365 miðla hf.

  Mikil eignatengsl eru einnig milli Vodafone og Símans, en sömu hluthafar eiga stóra eignarhluti í báðum félögunum. Það samkeppnislega vandamál varð ekki til við samruna Vodafone og 365. Brotthvarf 365 sem sjálfstæðs keppinautar gerir það hins vegar brýnna að brugðist sé við þessu sameiginlega eignarhaldi. Til þess að draga úr samkeppnishindrunum sem af þessu geta hlotist hefur Vodafone skuldbundið sig til þess að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði stjórnar og lykilstarfsmanna og að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar berist ekki til hluthafa sem eiga eignarhlut í keppinautum Vodafone. Gera skal samkeppnisréttaráætlun þar sem fjallað skal sérstaklega um samkeppnishindranir sem stafað geta af þessum eignatengslum.

  Sjá nánar IV. kafla sáttarinnar við Vodafone.

 5. Unnið gegn hættu á samhæfðri hegðun á markaðnum.
  Við samrunann verður til sterkt lóðrétt samþætt fyrirtæki á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði, við hlið Símans sem einnig starfar á sömu mörkuðum. Njóti þessi fyrirtæki ekki nægilegs samkeppnislegs aðhalds getur skapast jarðvegur fyrir þegjandi samhæfingu og þar með samkeppnisröskun. Þær aðgerðir sem Vodafone hefur skuldbundið sig til að ráðast í vinna gegn þessari hættu. Með þetta í huga ná skyldur Vodafone til að bjóða mikilvægar sjónvarpsrásir og sjónvarpsþjónustu Vodafone í heildsölu aðeins til nýrra og smærri fyrirtækja.


Til viðbótar framangreindu er í sátt við Vodafone mælt fyrir um bann við óréttmætum töfum og tæknihindrunum í heildsöluþjónustu, kveðið á um tilhögun skipulags og upplýsingamiðlunar innan fyrirtækisins, eftirlit með því að sáttin verði réttilega framkvæmd o.fl. Jafnframt hefur verið gengið úr skugga um áframhaldandi framleiðslu á íslensku efni og áframhaldandi rekstur fréttastofa.

Á milli Vodafone og 365 var, í tengslum við samrunann, gerður samstarfssamningur, þar sem samið var um að Vodafone skyldi fá aðgang að fréttum sem birtast munu í Fréttablaðinu, til birtingar á Vísi. Samkeppniseftirlitið taldi gildistíma þessa samnings vera of langan og leiddu viðræður eftirlitsins við Vodafone til þess að gildistíminn hefur verið styttur.

Fyrrgreindar sáttir við Fjarskipti hf. og 365 miðla hf. eru aðgengilegar á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, www.samkeppni.is. Innan tíðar mun Samkeppniseftirlitið ennfremur birta ítarlega ákvörðun, þar sem nánari grein verður gerð fyrir rannsókn eftirlitsins og niðurstöðum.

Bakgrunnsupplýsingar

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samrunanum hófst 27. apríl 2017, en þá barst Samkeppniseftirlitinu fullbúin samrunaskrá og tímafrestir í málinu byrjuðu að líða. Við meðferð málsins óskaði Vodafone eftir viðræðum um setningu skilyrða til að vinna gegn samkeppnishömlum sem af samrunanum gætu leitt. Hafa þær viðræður staðið frá því í júlí sl.

 Í ágúst sl. var samrunaaðilum birt andmælaskjal, þar sem gerð var grein fyrir frummati Samkeppniseftirlitsins á áhrifum samrunans. Andmælaskjalið varð grundvöllur áframhaldandi viðræðna um skilyrði, sem nú hafa verið til lykta leiddar. Við meðferð málsins hefur Samkeppniseftirlitið aflað gagna og sjónarmiða frá fjölmörgum aðilum á markaði og öðrum hagsmunaaðilum, auk Póst- og fjarskiptastofnunar og fjölmiðlanefndar.

 Rannsókn málsins fór fram á grundvelli samrunaákvæða samkeppnislaga nr. 44/2005 og laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Samkvæmt þeim lögum ber Samkeppniseftirlitinu að rannsaka hvort samruni sem fjölmiðlaveitur eiga aðild að kunni að hafa skaðleg áhrif á fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun.