15.12.2017

Aðgerðir til þess að bæta samkeppni í fasteignasölu

Með ákvörðun nr. 43/2017, sem birt er í dag, lýkur rannsókn Samkeppniseftirlitsins á brotum Félags fasteignasala (FF) á 12. gr. samkeppnislaga. Félagið óskaði eftir sátt og hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við félagið. Með ákvörðuninni og undirliggjandi sátt er komið í veg fyrir háttsemi sem fer gegn samkeppnislögum. Um leið er stuðlað að því að starfsemi á markaði fyrir sölu fasteigna á Íslandi byggi á forsendum heilbrigðrar samkeppni.  

Háttsemin

Samkvæmt 12. gr. samkeppnislaga er samtökum fyrirtækja, líkt og FF, óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Með sáttinni viðurkennir FF m.a. að starfsemi félagsins hafi farið gegn 12. gr. samkeppnislaga hvað varðar eftirfarandi háttsemi:

  • FF stóð fyrir umræðu um söluþóknun og innheimtu umsýslugjalds á meðal aðildarfyrirtækja (fasteignasala).

  • FF hvatti til þess að aðildarfyrirtæki auglýstu fasteignir eingöngu til sölu á vef í eigu FF og sniðgengju aðra miðla.

 Breytingar til framtíðar

Mikilvægt er að vinna gegn því að sams konar háttsemi endurtaki sig á markaði fyrir sölu fasteigna og stuðla þannig að virkari samkeppni til frambúðar á mikilvægum neytendamarkaði. Samhliða því að viðurkenna brot og fallast á greiðslu 6 milljóna króna stjórnvaldssektar vegna þeirra hefur FF einnig fallist á að gera breytingar á starfsemi sinni og innleiða m.a. samkeppnisréttaráætlun, sem og að tryggja að stjórnendur og starfsmenn FF, sem og aðildarfyrirtæki félagsins, þ.e. fasteignasalar sem eru meðlimir í FF, séu ávallt að fullu upplýstir um þær kröfur sem samkeppnisreglur gera til starfsemi fyrirtækja og samtaka fyrirtækja á samkeppnismörkuðum. 

Markaður fyrir sölu á fasteignum er afar mikilvægur neytendamarkaður. Það er mikilvægt fyrir áframhaldandi starfsemi á markaðnum að hann sé reistur á stoðum heilbrigðrar samkeppni. Er það forsenda þess að viðskiptavinir njóti betra verðs, gæða og úrvals. Skilyrði þau sem sett hafa verið í ákvörðun þessari stuðla að því að starfsemi á markaðnum til framtíðar byggi á þessum forsendum.

 

Málinu í heild sinni, og meðferð þess, er nánar lýst í ákvörðuninni.