23.11.2017

Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða vegna samruna Haga og Olís annars vegar og samruna N1 og Festi hins vegar

Samkeppniseftirlitið hefur nú til rannsóknar samkeppnisleg áhrif samruna Haga hf. og Olíuverzlunar Íslands hf. annars vegar og samruna N1 hf. og Festi hf. hins vegar. Þar sem um er að ræða samruna á mörkuðum sem varða almenning miklu hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að óska opinberlega eftir sjónarmiðum almennings og fyrirtækja um áhrif samrunanna á samkeppni. Til að gefa almenningi og öðrum hagaðilum kost á að kynna sér málin hefur Samkeppniseftirlitið birt samrunatilkynningar málanna á heimasíðu sinni.

Gagnaöflun í máli Haga og Olíuverzlunar Íslands hefur staðið um nokkra hríð, en rannsóknin hófst eftir að fullnægjandi samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu þann 26. september sl. Gagnaöflun í máli N1 og Festi er skemmra á veg komin, en fullnægjandi samrunatilkynning barst í því máli rúmlega mánuði síðar, eða þann 31. október sl.

Rannsóknarefni

Í báðum málunum ber Samkeppniseftirlitinu að rannsaka hvort viðkomandi samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða slík staða styrkist, eða að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c samkeppnislaga.

Við rannsóknina er Samkeppniseftirlitið m.a. með eftirfarandi atriði til skoðunar:

  • Stöðu samrunaaðila á dagvöru- og eldsneytismörkuðum, meðal annars m.t.t. áhrifa af innkomu Costco á þessa markaði og áhrif samrunanna á einstökum landfræðilegum mörkuðum.

  • Áhrif samrunanna á staðsetningar dagvöruverslana og eldsneytisstöðva til framtíðar, einkum með tilliti til verslunarhúsnæðis eða lóða sem sameinuð fyrirtæki munu búa yfir, gangi samrunarnir eftir.

  • Eignatengsl á dagvörumarkaði og eldsneytismarkaði, en stórir eigendur þessara fyrirtækja eiga oft í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði. Eignatengsl þessara fyrirtækja við birgja eru einnig til skoðunar.

  • Áhrif samrunanna á birgðahald og dreifingu á eldsneytismarkaði.

Sjónarmiða óskað

Með tilkynningu þessari er öllum sem áhuga hafa gefið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum á framfæri vegna þessara samruna.  Er þess óskað að sjónarmið berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar en 7. desember nk. Hægt er að senda þau á netfangið samkeppni@samkeppni.is eða með bréfpósti: Samkeppniseftirlitið, Borgartún 26, 125 Reykjavík – Pósthólf 5120.

Málsmeðferðin - tímafrestir

Samkeppniseftirlitið hefur 25 virka daga til að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samruna. Reynist svo vera, hefur eftirlitið 70 virka daga til viðbótar til að taka ákvörðun í málinu. Í ljósi umfangs málanna og mikilvægis undirliggjandi markaða má gera ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið þurfi að nýta þessa fresti.

Samrunaskrá vegna samruna Haga, OlíuverzlunarÍslands og DGV

Samrunaskrá vegna samruna N1 og Festi