1.10.2010

Þrjú kjötvinnslufyrirtæki gera sátt við Samkeppniseftirlitið og aðstoða þannig við rannsókn á samkeppnishömlum á kjötmarkaði

Sláturfélag Suðurlands, Reykjagarður og Kaupfélag Skagfirðinga greiða samtals 85 milljónir kr. í sekt og grípa til ráðstafana sem ætlað er að efla samkeppni

ss_ks_reykjagardurSamkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar hvort annars vegar verslanir Bónuss í eigu Haga, og hins vegar átta kjötvinnslufyrirtæki hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þetta gerðu fyrirtækin með tvíhliða samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar hafa verðmerkt fyrir Haga (svokölluð forverðmerking).

Eftir umfangsmikla athugun á m.a. tölvupóstssamskiptum kjötvinnslu-fyrirtækjanna og Haga kynnti Samkeppniseftirlitið í júlí sl. umræddum fyrirtækjum þá frumniðurstöðu að Hagar og einstakar kjötvinnslur hefðu brotið samkeppnislög í tengslum við smásöluverðlagningu á kjötvörum í verslunum Bónuss. Var kjötvinnslunum og Högum gefinn kostur á að tjá sig um þessa frumniðurstöðu.

Hagar sneru sér til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt. Samkeppniseftirlitið gerði sátt við Haga og í henni fólst m.a. að Hagar viðurkenndu brot á 10. gr. samkeppnislaga og greiða sekt vegna þessa (sjá nánar fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins frá 27. september sl.).

Í kjölfarið hafa Sláturfélag Suðurlands, Reykjagarður og  Kaupfélag Skagfirðinga einnig óskað eftir því að ljúka málinu með sátt. Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sáttir við umrædd fyrirtæki. Í þeim felst eftirfarandi:

  • Kaupfélag Skagfirðinga viðurkennir (vegna Kjötafurðarstöðvar KS) að hafa brotið 10. gr. samkeppnislaga með samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við verðlagningu á kjötvörum í smásölu í verslunum Bónuss. Greiðir fyrirtækið 40 milljónir kr. í stjórnvaldssekt vegna brotanna.
  • Sláturfélag Suðurlands og Reykjagarður viðurkenna að hafa brotið 10. gr. samkeppnislaga með samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við verðlagningu á kjötvörum í smásölu í verslunum Bónuss. Eru greiddar 45 milljónir kr. í sekt vegna brotanna. Reykjagarður er í eigu Sláturfélag Suðurlands.
  • Umrædd fyrirtæki samþykkja að grípa til ráðstafana sem ætlað er að efla samkeppni í sölu á kjötvörum neytendum til hagsbóta. Í þessu felst m.a. að þau skuldbinda sig til þess hætta öllum samskiptum við endursöluaðila um smásöluverð og hætta í áföngum að selja kjötvörur sem merktar eru með leiðbeinandi smásöluverði.

Rétt er að taka fram að umrædd fyrirtæki hafa í samskiptum við Samkeppniseftirlitið lagt á það áherslu að þau hafi ekki haft ásetning til þess að raska samkeppni og að við mat á eðli málsins verði að horfa til þess að löng hefð sé fyrir forverðmerkingum hjá öllum fyrirtækjum á matvörumarkaði.

Sátt þessi auðveldar rannsókn Samkeppniseftirlitsins auk þess sem hún hefur mun fyrr en ella hafa í för með sér breytingu á markaðnum og jákvæð áhrif fyrir samkeppni og neytendur.

Með þessum sáttum er málinu lokið gagnvart Kaupfélagi Skagfirðinga, Sláturfélagi Suðurlands og Reykjagarði. Þáttur annarra kjötvinnslufyrirtækja (Kjarnafæði, Norðlenska, Kjötbankinn, Síld og fiskur  og Matfugl) er enn til rannsóknar.

Nánari upplýsingar um bakgrunn og aðdraganda þessa máls er finna í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins frá 27. september sl. vegna sáttarinnar við Haga.