7.10.2010

Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði (SART) viðurkenna brot á samkeppnislögum

TolvuidnadurSamtökin greiða 4 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Samtökin grípa til ráðstafana sem ætlað er að tryggja að samkeppni verði ekki raskað á vettvangi samtakanna.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á starfsemi SART hófst í kjölfar kvörtunar fyrirtækis í lok síðasta árs. Rafverktökum í samtökunum hafði verið meinað að eiga viðskipti við kvartanda þar sem ágreiningur var milli hans og rafverktaka innan samtakanna vegna uppgjörs á verksamningi þeirra á milli. Við athugun Samkeppniseftirlitsins kom í ljós að SART höfðu jafnframt brotið gegn a.m.k. þremur öðrum fyrirtækjum á rannsóknartímabilinu. Þetta gerðu SART með því að senda tilkynningu til rafverktaka innan samtakanna um að sniðganga fyrirtæki sem áttu í viðskiptalegum ágreiningi við félagsmenn SART. Byggði þessi framkvæmd á s.k. samskiptareglum aðildarfélaga SART.

SART viðurkenna að hafa brotið samkeppnislög með útgáfu og beitingu þessara samskiptareglna. Slíkar samstilltar aðgerðir keppinauta og samtaka fyrirtækja um að sniðganga einn eða fleiri viðskiptavini eða keppinauta eru til þess fallnar að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Fleiri greinar samskiptareglnanna fólu í sér nána upplýsingamiðlun og samvinnu milli rafverktaka um viðkvæm viðskiptaleg atriði og brutu því í bága við samkeppnislög.

Meðan á málsmeðferð stóð óskuðu SART eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Upplýstu samtökin að þau hyggðust afnema hin umdeildu ákvæði úr samskiptareglum sínum og afturkalla tilkynningar til rafverktaka um verkbönn. Sátt náðist um niðurstöðu málsins og byggir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á henni. Í sáttinni felst að SART fallast á að hafa brotið gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga og fallast samtökin á að greiða fjórar milljónir króna í stjórnvaldssekt.

Við mat á fjárhæð sekta var litið til veltu samtakanna og aðildarfyrirtækja þeirra, sbr. 2. mgr. 37. gr. samkeppnislaga. Jafnframt var litið til þess að SART hafa játað brot á samkeppnislögum og höfðu frumkvæði að því að afnema hin samkeppnishamlandi ákvæði og grípa til annarra aðgerða til að tryggja að brot endurtaki sig ekki.  Með þessum aðgerðum sínum hafa SART auðveldað og stytt rannsókn samkeppnisyfirvalda og breytt starfsháttum á markaðinum.

SART eru samtök fyrirtækja og 12. gr. samkeppnislaga bannar slíkum samtökum allt samkeppnishamlandi samráð. Í banni 10. gr. samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði felst að fyrirtæki ákveði sjálfstætt hvernig þau hegði sér á markaði, þ.m.t. við hverja þau eiga viðskipti. Mega samtök fyrirtækja með engu móti vinna gegn þessu sjálfstæði félagsmanna sinna. Hvílir sérstaklega rík skylda á hagsmunasamtökum fyrirtækja að gæta þess að samvinna innan þeirra takmarki ekki samkeppni og valdi þar með neytendum ekki tjóni. 

Sjá nánar ákvörðun nr. 27/2010.