6.6.2019

Vegna fréttaumfjöllunar í Fréttablaðinu um söluvirði Lyfju hf.

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að ríkið, sem seljandi eignahlutar í Lyfju hafi selt allt hlutafé í Lyfju á meira en milljarði króna lægra verði en Hagar höfðu samþykkt að greiða. Þau viðskipti hafi ekki gengið eftir vegna ógildingar Samkeppniseftirlitsins á kaupunum.

Af þessu tilefni er rétt að taka eftirfarandi fram:

  • Með ákvörðun nr. 28/2017 ógilti Samkeppniseftirlitið kaup Haga hf. á Lyfju hf. Komst eftirlitið að þeirri niðurstöðu að með kaupum sínum á Lyfju hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína á dagvörumarkaði og skaðleg samþjöppun hefði orðið á þeim mörkuðum sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, ekki síst á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði. Samruninn hefði leitt til þess að á þeim markaði hefði horfið samkeppni sem nú er á milli Haga og Lyfju. Samruninn hefði því verið til þess fallin að skaða samkeppni, almenningi og atvinnulífi til tjóns.
  • Í fréttinni er greint frá því að Hagar hafi mótmælt ógildingu Samkeppniseftirlitsins á kaupunum. Rétt er af þessu tilefni að taka fram að í tilkynningu Haga í kauphöll, frá 10. ágúst 2017, var greint frá því að Hagar hyggðust ekki freista þess að fá ógildingu Samkeppniseftirlitsins á kaupunum hnekkt fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sem fyrirtækið hafði fullan rétt á að gera. Þannig gátu Hagar látið reyna á það sjónarmið sitt að samruninn ylli ekki samkeppnislegu tjóni, en fyrirtækið kaus að gera það ekki.
  • Ýmsar ástæður geta legið að baki þeim verðmun sem fjallað er um í fréttinni, s.s. breyttar aðstæður í rekstri fyrirtækja líkt og vísað er til í fréttinni. Þá er þekkt í samkeppnismálum að það getur haft áhrif á verðmat fyrirtækja til hækkunar þegar samruni leiðir til röskunar á samkeppni sem getur birst í hærra verði til neytenda ef ekkert er að gert. Verðmunur af þessu tagi getur því falið í sér vísbendingu um að það hafi verið full þörf á því fyrir samkeppnisyfirvöld að grípa inn í viðkomandi samruna, til verndar almannahagsmunum.
  • Í úrlausnum sínum gerir Samkeppniseftirlitið ekki greinarmun á því hvort seljandi er opinber aðili eða einkaaðili. Inngrip eftirlitsins miða jafnan að því að tryggja virka samkeppni, viðskiptavinum og almenningi til góðs, óháð hvaða aðrir hagsmunaaðilar eiga í hlut. Ber eftirlitinu þannig að taka mið af hagsmunum almennings af virkri samkeppni til lengri tíma litið, en ekki hugsanlegum skammtímahagsmunum seljanda, jafnvel þótt hann sé ríkissjóður.
  • Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að tilkynnt hafi verið um kaup SID á eignarhlutum í Lyfju í febrúar í fyrra og að Samkeppniseftirlitið hafi lagt blessun sína yfir viðskiptin ári síðar. Hið rétta er að fullbúin tilkynning um kaupin barst 11. júní 2018 og rannsókn lauk með sátt Samkeppniseftirlitsins við samrunaaðila þann 11. september 2018.