12.7.2021

Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum vegna fyrirhugaðra kaupa Marel Iceland ehf. á hlutafé í Völku ehf.

Samkeppniseftirlitinu barst tilkynning um samruna vegna kaupa Marel Iceland ehf., dótturfélags Marel hf., á hlutafé í Völku ehf. Með kaupunum eignast Marel Iceland ehf. 91,6% hlut í Völku ehf. Hér má finna samrunaskrá fyrirtækjanna þar sem trúnaðarupplýsingar hafa verið fjarlægðar.

Marel framleiðir og selur búnað fyrir fiskvinnslu, kjötvinnslu og vinnslu á ali fuglakjöti. Valka er hins vegar einungis með búnað fyrir fiskvinnslu. Að mati fyrirtækjanna skarast starfsemi samrunaaðila eingöngu hvað varðar þróun, framleiðslu og sölu á búnaði fyrir fisk, nánar tiltekið bæði vegna véla sem tilheyra frumvinnslu og vegna búnaðar sem tilheyrir fullvinnslu.

Í samræmi við 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005 beinist rannsókn Samkeppniseftirlitsins að því hvort samruni fyrirtækjanna hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða hann verði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, þannig að samruninn krefjist mögulegrar íhlutunar.

Samkeppniseftirlitið kallar hér með eftir athugasemdum og sjónarmiðum allra hagaðila og annarra sem kunna að vilja tjá sig um samrunann, svo sem um möguleg jákvæð eða neikvæð áhrif hans á samkeppni á viðkomandi mörkuðum fyrir framleiðslu og sölu á búnaði fyrir fiskvinnslu.

Er þess óskað að umsagnir berist með tölvupósti á netfangið samkeppni@samkeppni.is innan tveggja vikna eða í síðasta lagi 26. júlí nk.