5.4.2000

Alvarlegar rangfærslur Landssímans

Í frétt sem birtist á baksíðu Morgunblaðsins í dag er fullyrt að Samkeppnisstofnun fari fram á hækkun GSM-álags Landssímans í tengslum við kvörtun Frjálsra fjarskipta. Í fréttinni og í ummælum sem höfð eru eftir talsmanni Landssímans koma alvarlegar rangfærslur. Telur Samkeppnisstofnun nauðsynlegt að gera eftirfarandi athugasemdir:

Samkeppnisstofnun hefur ekki beint neinum fyrirmælum eða tilmælum til Landssímans um að hækka sk. GSM-álag vegna máls Frjálsra fjarskipta, enda er því máli ólokið.

Samkeppnisstofnun barst í febrúar sl. erindi frá Frjálsum fjarskiptum hf. þar sem þess er krafist að GSM deild Landssímans verði á grundvelli samkeppnislaga gert skylt að bjóða þeim símnotendum sem hringja til útlanda í gegnum útlandagátt keppinauta  Landssímans sömu kjör og bjóðast ef hringt er til útlanda í gegnum Landssímann. Benti fyrirtækið á að þegar hringt er úr GSM síma frá Landssímanum til útlanda í gegnum Frjáls fjarskipti bætist 13-18 kr. álag á mínútu ofan á venjulegan kostnað við símtalið. Þegar hringt er til útlanda í gegnum millilandagátt Landssímann bættist hins vegar einungis við 7,47 á kr. á mínútu. Þetta telja Frjáls fjarskipti vera samkeppnishamlandi og grófa mismunun á milli útlandasímaþjónustu Landssímans og Frjálsa fjarskipta.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).