15.12.2000

Yfirtaka Prentsmiðjunnar Odda hf. á Steindórsprenti-Gutenberg ehf.

Samkeppnisráð hefur ógilt yfirtöku Prentsmiðjunnar Odda hf. á Steindórsprenti-Gutenberg ehf. Ráðið telur ljóst að yfirtakan hefði leitt til alvarlegrar röskunar á samkeppni og óviðunandi samþjöppunar á prentmarkaði, sem myndi leiða til þess að hið sameinaða fyrirtæki gæti hagað verðlagningu sinni og viðskiptaskilmálum án tillits til keppinauta eða viðskiptamanna sinna.

Þann 12. október sl. keypti Oddi, sem er stærsta prentsmiðja landsins, nær allt hlutafé í Steindórsprenti-Gutenberg, næststærstu prentsmiðju landsins, en auk þess á Oddi prentsmiðjurnar Grafík og Offsetþjónustuna. Að mati samkeppnisráðs hefði yfirtakan aukið verulega samþjöppun á prentmarkaði og verið til þess fallin að valda þar alvarlegri röskun á samkeppni til tjóns fyrir neytendur. Á það við hvort sem litið er á prentmarkaðinn í einu lagi eða á markaðinn fyrir prentun bóka og tímarita annars vegar og hins vegar aðra prentun, svokallað einfalt prentverk.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).