30.4.2002

Samkeppnisráð ákveður sakaruppgjöf eða lækkun sekta svo auðveldara verði að koma upp um ólögmætt samráð fyrirtækja

Tjón þjóðfélagsins af ólögmætu samráði kann að nema 20% af söluverðmæti

Á fundi sínum 30. apríl sl. tók samkeppnisráð mikilvægt skref í baráttu samkeppnisyfirvalda við að koma upp um ólöglegt verðsamráð fyrirtækja og annað ólögmætt samstarf þeirra. Á fundinum samþykkti samkeppnisráð reglur um niðurfellingu á sektum eða lækkun sekta á fyrirtæki þegar fyrirtæki sem taka þátt í ólöglegu samráði veita Samkeppnisstofnun upplýsingar um samráðið og starfa með stofnuninni við að upplýsa það.

Ólögmætt samráð rýrir lífskjör almennings

Leynilegt, ólögmætt samráð fyrirtækja er alvarlegsta brot á samkeppnislögum þar sem það leiðir undantekningarlaust til hærra verðs en ella. Slíkt samráð fyrirtækja skaðar því bæði hag atvinnulífsins og neytenda. Aðföng fyrirtækja verða dýrari og þegar til lengri tíma er litið dregur það úr samkeppnishæfni atvinnugreina þannig að atvinnutækifærum fækkar.

Á grundvelli rannsókna hafa verið leiddar að því líkur að meðaltals ávinningur fyrirtækja sem þátt taka í ólöglegu verðsamráði nemi 10% af söluverði vöru og þjónustu. Skaði þjóðfélagsins í slíkum tilvikum er hins vegar mun meiri og kann að nema 20% af veltu samráðsfyrirtækja. Með öðrum orðum þá greiða kaupendur, þ.e. neytendur, fyrirtæki og hið opinbera, mun hærra verð fyrir vörur og þjónustu þegar keppinautar koma sér saman um verð, hafa samráð við gerð tilboða eða skipta með sér mörkuðum en þar sem heiðarleg samkeppni fær að njóta sín.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).