22.3.2004

Lögmannafélag Íslands sektað fyrir brot á samkeppnislögum

Á árunum 2001-2002 var saminn á vegum Lögmannafélags Íslands (LMFÍ) sk. kostnaðargrunnur fyrir lögmannsstofu. Í nóvember 2002 birti LMFÍ félagsmönnum sínum kostnaðargrunninn með upplýsingum um það hvert tímagjald lögmanna þyrfti að vera að lágmarki miðað við grunninn. Að mati samkeppnisráðs hvatti LMFÍ til hækkunar og samræmingar á gjaldskrá lögmanna með því að láta semja kostnaðargrunninn og birta hann. Það er niðurstaða samkeppnisráðs að Lögmannafélagið hafi brotið gegn bannákvæðum samkeppnislaga um ólögmætt samráð.

Ólögmætt samráð fyrirtækja eða hvatning hagsmunasamtaka til slíks athæfis er eitt alvarlegasta brot á samkeppnislögum. Samkeppnisráði þykir hæfilegt að LMFÍ greiði 3,5 m.kr. sekt í ríkissjóð vegna brotsins. Með vísan til þeirra krafna sem gera má til LMFÍ um þekkingu á samkeppnislögum og í ljósi þess að félagið hefur áður brotið gegn samkeppnislögum1 telur samkeppnisráð enn ríkari ástæðu til að leggja á sektir til að tryggja að félagið hlíti bannákvæðum samkeppnislaga í framtíðinni.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).