23.6.2004

Samkeppnisráð setur skilyrði fyrir samruna verslunarsviðs Tæknivals hf. við Skífuna ehf.

Samkeppnisráð hefur tekið ákvörðun í tilefni af samruna verslunarsviðs Tæknivals hf. við Norðurljós hf. (Skífuna ehf.). Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að samruninn, eins og hann var ákveðinn af samrunaaðilum, leiddi til þess að Baugur Group hf. og Eignarhaldsfélagið Fengur hf./Fons eignarhaldsfélag hf. ásamt tengdum aðilum öðluðust yfirráð í Norðurljósum. Þá myndi samruninn leiða til markaðsráðandi stöðu félaga undir yfirráðum Baugs og Fengs/Fons á heildsölu- og smásölumarkaði hljómdiska, mynddiska og tölvuleikja, eða að slík staða styrktist. Samruninn myndi draga úr samkeppni á þessum mörkuðum og væri hann því andstæður markmiði samkeppnislaga og hagsmunum neytenda. Í frumathugun Samkeppnisstofnunar, sem málsaðilum var kynnt þann 13. maí sl., var komist að sömu niðurstöðu.

Telji samkeppnisráð að samruni hindri virka samkeppni getur ráðið ógilt samrunann eða sett honum skilyrði.

Snemma í þessum mánuði skýrðu samrunaaðilar samkeppnisyfirvöldum frá því að þann 28. maí sl. hafi ótengdur aðili gert bindandi kauptilboð í allt hlutafé í Skífunni og hefði það verið samþykkt. Eftir það fóru fram viðræður milli samrunaaðila, nýrra kaupenda Skífunnar og samkeppnisyfirvalda um skilyrði fyrir samruna verslunarsviðs Tæknivals við Skífuna. Hafa þær leitt til þeirrar niðurstöðu að samkeppnisráð hefur í ákvörðun sinni sett samrunanum skilyrði. Með sölu Skífunnar til ótengds aðila og að uppfylltum fyrrnefndum skilyrðum telur samkeppnisráð að skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni verði eytt.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).