29.10.2004

Þung viðurlög vegna langvarandi, ólögmæts samráðs olíufélaganna

Stjórnvaldssektir

Á fundi sínum 28. október sl. tók samkeppnisráð ákvörðun í máli sem varðar ólögmætt samráð olíufélaganna Kers hf (Olíufélagsins), Olíuverzlunar Íslands hf. (Olís) og Skeljungs hf. Auk þess er í ákvörðuninni fjallað um ólögmætt verðsamráð Bensínorkunnar ehf. (Orkunnar) við hin olíufélögin.

Í ákvörðun samkeppnisráðs eru olíufélögin beitt viðurlögum vegna samfellds brots á samkeppnislögum sem stóð yfir í a.m.k tæp níu ár. Viðurlögin sem samkeppnisráð leggur á félögin vegna hins ólögmæta samráðs þeirra eru stjórnvaldssektir sem nema 1.100 milljónum króna fyrir hvert hinna þriggja félaga eða samtals 3,3 milljörðum króna. Orkunni er gert að greiða 40 milljón krónur í ríkissjóð. Hin þungu viðurlög endurspegla m.a. ávinning olíufélaganna af ólögmætu samráði þeirra, sem samkeppnisráð metur varlega að nemi a.m.k. 6,5 milljörðum króna á því tímabili sem rannsókn samkeppnisyfirvalda tók til. Rannsóknartímabilið er frá því samkeppnislög tóku gildi 1. mars 1993 til 18. desember 2001 en þá framkvæmdi Samkeppnisstofnun húsleit hjá félögunum. Við ákvörðun stjórnvaldssekta er einnig höfð hliðsjón af umfangi samráðsins, brotavilja olíufélaganna, þjóðhagslegu mikilvægi þeirrar vöru sem um er að ræða og stöðu olíufélaganna á markaðnum fyrir fljótandi eldsneyti.

Vegna samstarfs við Samkeppnisstofnun í því skyni að upplýsa brot olíufélaganna, sem fól í sér mikilvæga viðbót við sönnunargögn í málinu, hefur samkeppnisráð ákveðið að lækka stjórnvaldssekt Olíufélagsins í 605 milljónir króna og sekt Olís í 880 milljónir króna. Það er mat samkeppnisráðs að Skeljungur hafi ekki uppfyllt skilyrði til að njóta afsláttar og gerir ráðið félaginu að greiða 1.100 milljónir króna í ríkissjóð.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).